Allt með „frekar kyrrum kjörum“ í Idlib

Samkomulag um vopnahlé náðist á fundi Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og …
Samkomulag um vopnahlé náðist á fundi Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta í gær. AFP

Vopnahlé tók gildi í borginni Idlib í norðurhluta Sýrlands á miðnætti að staðartíma, eða klukkan tíu í gærkvöldi að íslenskum tíma. Allt hefur verið með „frekar kyrrum kjörum“ frá því vopnahléið tók gildi samkvæmt mannréttindasamtökunum Syrian Observatory for Human Rights. 

Í tilkynningu samtakanna segir að Sýrlendingar og Rússar hafi hætt öllum loftárárásum á miðnætti. Árásum á uppreisnarsveitir í Aleppo og Hama hefur hins vegar ekki linnt á jörðu niðri. 

Samkomulag um vopnahlé náðist á fundi Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta í gær. Fundur forsetanna varði í sex klukkustundir og lauk með samkomulagi. 

Eyðileggingin í Idlib er gríðarleg. Um þriðjungur þessa bæjar í …
Eyðileggingin í Idlib er gríðarleg. Um þriðjungur þessa bæjar í suðurhluta Idlib-héraðs er gjöreyðilagður eftir átök síðustu mánaða. Gervihnattamynd/Digital Globe

33 tyrk­nesk­ir her­menn voru drepn­ir í loft­árás í Norður-Sýr­landi á dögunum. Sýr­lenski stjórn­ar­her­inn reyn­ir að ná yf­ir­ráðum í Idlib-héraði af upp­reisn­ar­hóp­um sem Tyrk­ir styðja við og hafa hörð átök staðið þar und­an­farn­ar vik­ur sem hafa leitt til þess að næst­um millj­ón al­mennra borg­ara hef­ur þurft að leggja á flótta frá heim­il­um sín­um.

Vopnahléið felur meðal annars í sér ákvæði um sex kílómetra breitt öryggissvæði báðum megin við þjóðvegin sem tengir borgirnar Latakia og Aleppo, en báðar eru á valdi sýrlenska stjórnarhersins. Rússar og Tyrkir fara með sameiginlegt eftirlit á þessu svæði frá og með 15. mars samkvæmt skilmálum vopnahlésins. 

Erdogan segir þó að Tyrkir áskilji sér rétt til að svara öllum árásum sýrlenska stjórnarhersins af fyllstu hörku, komi til þeirra á meðan vopnahléið stendur.

Vopnahlé hófst í Idlib á miðnætti.
Vopnahlé hófst í Idlib á miðnætti. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert