Segir 70% Þjóðverja geta smitast

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á blaðamannafundi í dag.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á blaðamannafundi í dag. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir líkur á því að 70% Þjóðverja, eða um 58 milljónir, eigi á hættu að smitast af kórónuveirunni. Þetta sagði Merkel á blaðamannafundi í dag, en þetta er í fyrsta sinn sem hún tjáir sig opinberlega eftir að veiran greindist í Þýskalandi. 

Merkel segir það algjört forgangsatriði að hægja á útbreiðslu veirunnar, ekki síst þar sem ekkert bóluefni eða lækning er til við COVID-19, sjúkdómnum sem veiran veldur. 

Þriðja dauðsfallið af völdum COVID-19 var staðfest í Þýskalandi í dag. 1.296 hafa greinst með veiruna og ferða- og samkomubann tók gildi í landinu í gær. 

Merkel segir að lokun landamæra dugi ekki til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar en hún útilokar að grípa til sömu ráðstafana og stjórnvöld í Austurríki sem hafa bannað komur Ítala til landsins. 

„Þetta er próf fyrir okkur til að sýna samstöðu, skynsemi og umhyggjusemi. Og ég vona að við stöndumst prófið,“ sagði Merkel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert