Norski forsætisráðherrann Erna Solberg og Bent Høie heilbrigðisráðherra blésu til blaðamannafundar klukkan 14 í dag að norskum tíma og kynntu þar það sem forsætisráðherra kallar mestu inngrip í líf þjóðarinnar á friðartímum.
Í ýtrustu tilraun til að hægja á útbreiðslu kórónuveirufaraldursins hefur ríkisstjórn Noregs ákveðið að frá klukkan 18:00 í dag, fimmtudaginn 12. mars, og að minnsta kosti fram til sama tíma fimmtudaginn 26. mars, hugsanlega lengur, gildi eftirfarandi reglur um menntastofnanir, íþróttaviðburði, ýmsa atvinnustarfsemi og ferðir fólks:
Bent Høie heilbrigðisráðherra tók sérstaklega fram að páskarnir væru inni í því tímabili sem ferðabann heilbrigðisstarfsfólks nær yfir. Norska ríkið mun greiða heilbrigðisstarfsfólki þann kostnað sem það hefur lagt út vegna áætlaðra ferða og fær ekki endurgreiddan frá ferðaþjónustuaðilum.
Dekkstu spár gera nú ráð fyrir því að allt að 2,2 milljónir Norðmanna geti smitast af kórónuveirunni, samkvæmt mati Lýðheilsustofnunar Noregs. Camilla Stoltenberg, forstöðumaður stofnunarinnar, sem einnig kom fram á blaðamannafundinum í dag, tók sérstaklega fram að langstærstur hluti þeirra sem smitist fái lítil, jafnvel engin, einkenni af kórónuveirunni.
Matvöruverslanir munu halda eðlilegum afgreiðslutíma og tók heilbrigðisráðherra sérstaklega fram að engin ástæða væri fyrir almenning að hamstra mat. Allar samgöngur munu einnig halda sínu striki, að minnsta kosti þar til annað verði tilkynnt, en tók ráðherra fólki þó allan vara á að fara í önnur ferðalög, hvort sem væri innanlands eða utan, en þau sem allra nauðsynlegust væru vegna starfa.
Norðmenn eru enn fremur hvattir til að takmarka sem mest má vera allar heimsóknir á sjúkrastofnanir og hvers kyns hjúkrunarheimili þar sem búast má við að fólk hittist fyrir sem sérstaklega berskjaldað er gagnvart sýkingum.