Spænsk stjórnvöld tilkynntu 15 daga útgöngubann í kvöld sem tekur gildi á mánudagsmorgun. Bannið er liður í neyðarúrræðum stjórnvalda, en Pedro Sanchez forsætisráðherra hefur lýst yfir neyðarástandi í landinu. 191 hefur látist á Spáni og eru 6.046 smit staðfest í landinu.
Útgöngubannið tekur gildi klukkan átta að staðartíma á mánudagsmorgun. Spánn er það Evrópuríki, utan Ítalíu, sem verst hefur orðið fyrir barðinu á veirunni. Öllum verslunum á Spáni verður lokað, nema matvöruverslunum og öðrum sem selja nauðsynjavörur. Þá verður dregið úr lestarferðum milli landshluta.
Frönsk stjórnvöld hafa tilkynnt lokun allra almenningssvæða sem ekki teljast til nauðsynlegrar þjónustu. Lokunin tekur gildi á miðnætti í nótt, aðfaranótt sunnudags. Edouard Philippe forsætisráðherra segir að fólki á gjörgæslu vegna kórónuveirusmits fjölgi nú til muna og að almenningur hafi ekki hlýtt fyrri tilmælum.
Lokunin tekur til veitingastaða, kaffihúsa, kvikmyndahúsa, næturklúbba sem og fyrirtækja sem ekki eru talin „bráðnauðsynleg“. Til bráðnauðsynlegra fyrirtækja teljast matvöruverslanir, lyfsalar, bankar, bensínstöðvar og, merkilegt nokk, tóbaksverslanir. Þrátt fyrir lokunina munu sveitarstjórnarkosningar fara fram í Frakklandi á morgun með hefðbundnu sniði.
Á föstudag sagði í tilkynningu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) að Evrópa væri nú „miðja faraldursins“. Hvatti Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri stofnunarinnar, ríki álfunnar til að beita aðgerðum á borð við samgöngubann og einangrun til að bjarga lífi fólks.
Fréttin hefur verið uppfærð