Örtröð myndaðist á flugvöllum í Bandaríkjunum í gærkvöldi og nótt eftir að nýjar reglur um eftirlit og skimanir tóku gildi en nú eru allir farþegar sem koma frá Evrópu skoðaðir sérstaklega við lendingu. Gríðarlangar raðir mynduðust á nokkrum alþjóðaflugvöllum vegna þessa.
Ferðabann bandarískra yfirvalda frá Evrópu til Bandaríkjanna tók gildi fyrir rúmum sólarhring en nokkrir alþjóðaflugvellir verða áfram opnir fyrir Evrópuflug þar sem bannið nær ekki til bandarískra ríkisborgara. Margir þeirra brugðust þó við banninu og flýttu heimför.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að bannið yrði útvíkkað á þriðjudag og mun þá einnig ná til Bretlands og Írlands, auk 26 annarra Evrópuríkja sem eiga aðild að Schengen-samstarfinu.
Ríkisstjórinn í Illinois, JB Pritzker, segir raðirnar sem mynduðust á O'Hare-flugvellinum í Chicago óviðunandi. Hann ávarpar Donald Trump Bandaríkjaforseta á Twitter þar sem „það er eina leiðin til að ná athygli hans“. Þá hafa farþegar verið iðnir við að birta myndir og myndskeið af ástandinu á samfélagsmiðlum.
Farþegar eru meðal annars spurðir út í heilsufar og skimað fyrir flensueinkennum hjá þeim.
Chad Wolf, starfandi varnarmálaráðherra, segir að ráðuneytið sé í sambandi við flugfélög með það að markmiði að gera eftirlitið skilvirkara.
Faraldsfræðingar og sérfræðingar innan heilbrigðiskerfisins hafa bent á að mannþröng í flugstöðum geti leitt til þess að fleiri smitist af kórónuveirunni.
Alls hafa yfir 2.700 tilfelli greinst í Bandaríkjunum og 54 látið lífið af völdum kórónuveirunnar.