Hvetur ríki ESB til að standa saman

Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, varar við því að næstu vikur verði þær erfiðustu og hvetur til samhæfðra aðgerða meðal ríkja Evrópu varðandi kórónuveiruna. 

„Þörf er á evrópskri samvinnu á heilbrigðissviði sem og efnahagssviðinu,“ segir Conte í viðtali við Corriere della Sera í dag. Í dag munu leiðtogar sjö helstu iðnríkja ræða saman á fjarfundi um ástand mála í heiminum.

Hann segir að Ítalía hafi margt fram að færa enda hafi landið verið það fyrsta í Evrópu þar sem kórónuveiran dreifðist með ógnarhraða.

Ítalía var fyrsta ríki Evrópusambandsins til þess að loka skólum og nánast öllu viðskiptalífi til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. Alls eru 1.809 látnir þar í landi úr COVID-19 frá því í síðasta mánuði er fyrsta smitið kom þar upp. Þetta er meira en helmingur þeirra sem hafa látist af völdum veirunnar utan Kína. 

Conte segir að þjóðin hafi farið eftir þeim fyrirskipunum sem gefnar voru en vísindamenn hafi tjáð stjórnvöldum að hátindi farsóttarinnar sé ekki enn náð. 

Fréttir hafa borist af vandræðum sjúkrahúsa á Ítalíu, þar sé að verða skortur á sjúkrarúmum og starfsfólk komið að fótum fram vegna álags. Þetta á við um norðurhluta Ítalíu þar sem sjúkrahús eru afar góð og vel búin. Aftur á móti hefur minna borið á fréttum frá suðurhluta landsins þar sem fátækt er mun meiri. Conte segist óttast hvað gerist þar ef farsóttin herjar harðar þar en nú er. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert