Sex látnir í Svíþjóð

Landamæri Svíþjóðar og Noregs í dag.
Landamæri Svíþjóðar og Noregs í dag. AFP

Verð á hráolíu hefur ekki verið jafn lágt og nú í rúm fjögur ár. Sænsk stjórnvöld kynntu í dag nýjar aðgerðir í þágu atvinnulífsins, en þar í landi eru sex látnir úr kórónuveirunni. Þrjú ný dauðsföll voru tilkynnt rétt í þessu í Stokkhólmi. 1.032 hafa sýkst þar í landi.

Verð á Brent Norðursjávarolíu til afhendingar í maí lækkaði í 30,56 Bandaríkjadali tunnan í morgun og hefur ekki verið lægra síðan í febrúar 2016. Í New York hefur verð á WTI hráolíu lækkað um 5,64% í morgun og stendur nú í 29,59 dölum tunnan. 

Á blaðamannafundi sem var að ljúka í Stokkhólmi kom fram að að fólkið sem lést á sjúkrahúsum borgarinnar hefði verið eldra fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Fólkið lá á  Södersjukhuset, Danderyds og Karolinska sjúkrahúsinu. Af þeim sex sem hafa látist í Svíþjóð eru fimm búsettir á Stokkhólmssvæðinu. 

Staðan á Arlanda-flugvelli í Stokkhólmi í gær.
Staðan á Arlanda-flugvelli í Stokkhólmi í gær. AFP

Sænska ríkisstjórnin kynnti í morgun 300 milljarða sænskra króna, sem svarar til rúmlega 4.200 milljarða íslenskra króna, aðgerðarpakka. Fénu verður varið til að verja fyrirtæki og starfsfólk fjárhagslega vegna kórónuveirunnar. „Þetta eru algjörlega einstakar aðstæður fyrir sænskt efnahagslíf,“ sagði fjármálaráðherra Svíþjóðar, Magdalena Andersson, á blaðamannafundi. Hún sagði að ríkisstjórnin vonaðist til þess að með þessu yrði hægt að bjarga flestum fyrirtækjum í gegnum erfiðleikatímana. 

Meðal aðgerða er að greiða laun úr ríkissjóði og eins að fólk fái greidd laun í veikindaleyfi allt frá degi eitt frá ríkinu í stað þess að fyrirtæki beri kostnaðinn. Þetta gildir um apríl og maí. Eins fá fyrirtæki að fresta greiðslum á sköttum og gjöldum. 

Frétt SVT

Hlutabréfamarkaðir hafa verið í frjálsu falli í dag á sama tíma og bandaríski seðlabankinn lækkði stýrivexti sína niður í tæp 0%. Allt bendir til þess að aðgerðirnar nægi ekki til að sannfæra fjárfesta um að aðgerðirnar. Sérfræðingar á markaði óttast að bandaríski seðlabankinn hafi ekki lengur tök á að stöðva samdráttarskeiðið á meðan kórónuveiran geisar.

Um hádegi höfðu hlutabréfavísitölur í París og Mílanó lækkað um 8,4%, Madrid um 9,5%, Frankfurt um 7,1% og London 6%.

Flugfélög og ferðaþjónustufyrirtæki hafa lækkað mest. Meðal annars dróst virði TUI saman um þriðjung og IAG, móðurfélag British Airways og Iberia, hefur lækkað um 23%. Eins hefur bílaiðnaðurinn fengið skell. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert