Tölurnar segi ekki alla söguna

Vegglistaverk eftir Franco Rivolli á Giovanni XXIII-sjúkrahúsinu í Bergamo, þar …
Vegglistaverk eftir Franco Rivolli á Giovanni XXIII-sjúkrahúsinu í Bergamo, þar sem heilbrigðisstarfsfólki er þakkað fyrir framlag sitt. AFP

Íslensk fjölskylda sem búið hefur í Bergamo á Ítalíu í tólf ár segir tölurnar sem birtast um fjölda veikra og látinna af völdum kórónuveirunnar ekki segja alla söguna.

Ástandið var lengi vel hvað verst í Bergamo en Rut Valgarðsdóttir segir að nú sé ástandið svipað víða, enda hafi Ítalir verið lengi að átta sig á alvarleika veirunnar. „Ég var sjálf ein af þeim sem fannst kórónavírus í Wuhan mjög fjarlægur en atburðarásin hefur verið mjög hröð undanfarið og við höfum vaknað upp við vondan draum,“ segir Rut í samtali við mbl.is.

Rut lýsir átakanlegu ástandinu í færslu á Facebook þar sem hún segir að heilbrigðiskerfið sé svo mettað að sýni séu aðeins tekin úr þeim sem eru alvarlega veikir, en jafnvel þurfi margir sem séu alvarlega veikir að berjast fyrir því að fá læknishjálp. Samkvæmt opinberum tölum hafa rúmlega 31 þúsund veikst af kórónuveirunni á Ítalíu og um 2.500 látist.

„Sumir deyja heima án þess að vera nokkurn tímann testaðir því þeir ná ekki í gegnum filterana sem eru settir til að forgangsraða hjálpinni og aðrir kjósa að fara ekki á sjúkrahús því fólk sér það sem „one way ticket“ og deyr því í súrefnisnauð heima hjá sér,“ skrifar Rut.

Þá hafi almennum deildum sjúkrahúsa verið breytt í bráðadeildir og dagdeildum verið lokað, herinn hafi sent lækna og hjúkrunarfræðinga til að aðstoða en þeir veikist margir sjálfir. Þá deyi margir án þess að hafa sína nánustu hjá sér og jarðarfarir séu óhugsandi. „Kistur hrannast upp og aðstandendur standa hjá lamaðir af sorg samblandaðri við hræðsluna að smitast. Einu hljóðin sem við heyrum hér í einangruninni heima hjá okkur eru stöðug væl í sírenum sjúkrabílanna, dag og nótt, og við reynum að hugsa ekki um fólkið og söguna á bak við hvern sjúkrabíl sem brunar hjá.

Minnsta fórnin að halda sig heima

Útgöngubann er í gildi á Ítalíu en Rut segir matarskort ekki vera vandamál. Hins vegar þurfi þeir sem fari út fyrir hússins dyr að hafa skriflega yfirlýsingu meðferðis um hvert þeir séu að fara og hvað þeir ætli að gera. Þá séu fjöldatakmarkanir í verslunum og fyrir utan þær myndast langar raðir alla daga af viðskiptavinum með grímur og hanska.

Kistur látinna hrannast upp.
Kistur látinna hrannast upp. AFP

„En þetta er það minnsta og næstum aukaatriði. Það er alvarleiki yfirfullra sjúkrahúsa sem er aðalmálið,“ segir Rut.

Það versta er ekki yfirstaðið á Ítalíu en þar er miðað við að nái aðgerðir árangri muni ástandið ná hámarki í lok þessarar viku eða í byrjun þeirrar næstu. Í augnablikinu eru aðgerðir miðaðar við 3. apríl en útlit er fyrir að þær geti dregist á langinn.

„Það að vera heima í nokkrar vikur er minnsta fórnin sem við getum fært til að gera það að verkum að heilbrigðiskerfið fari ekki á hliðina. Þetta er ekki bara venjuleg flensa. Í síðustu viku létust 14 sinnum fleiri í Bergamo en á sama tíma í fyrra,“ segir Rut að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert