Ekki nútímahetjur heldur fávitar

AFP

Kaliforníubúum er gert að halda sig heima nema í ýtrustu neyð og eru þetta róttækustu aðgerðir sem bandarískt ríki hefur gripið til síðan kórónuveiran hóf að herja á heimsbyggðina. Íbúar Kaliforníu eru 40 milljónir talsins. Ítalía nýtur nú þess vafasama heiðurs að vera það land þar sem flestir hafa látist úr veirunni.

AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir að bandarískum vísindamönnum miði hratt áfram við að koma malaríulyfi á markað gegn veirunni og sakar Kínverja um að hafa brugðist of seint við og haldið upplýsingum leyndum fyrir umheiminum of lengi varðandi COVID-19.

Kínversk yfirvöld greindu aftur á móti frá því í dag að engin ný innlend smit hefðu komið upp þar í landi annan daginn í röð. Á sama tíma og vonin er að vakna meðal kínversks almennings um að öðlast eðlilegt líf að nýju hafa nokkur ríki hert enn frekar á landamæraeftirliti og fyrirskipað fólki að halda sig heima. Þetta þýðir að tugir milljóna eru lokaðir inni á heimilum sínum víða um heiminn. 

AFP

Yfir 10 þúsund látnir

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna varar við því að milljónir geti dáið ef veiran nær að breiðast óhindrað út um heiminn.

Leiðtogar heims hafa á sama tíma kynnt aðgerðir um stuðning við fyrirtæki og almenning sem nemur fleiri milljón milljónum (billjón) bandaríkjadala. Enn eiga eftir að koma í ljós áhrif veirunnar á hagkerfi heims sem titraa meir en þau hafa gert áratugum saman. 

AFP

Dauðsföllum fjölgar enn í Evrópu og í gær létust 427 á Ítalíu. Samkvæmt tölum frá Johns Hopkins-háskólanum eru 3.405 látnir þar en í Kína eru 3.245 látnir. Tekið er fram að ekki er víst að talningin sé nægjanlega nákvæm í Kína vegna þess hversu margir eldri borgarar hafa látist. Þrátt fyrir að dauðsföllin séu fleiri á Ítalíu en Kína er fjöldi þeirra sem hafa smitast miklu meiri í Kína eða 81.199 en 41.035 hafa smitast á Ítalíu. Alls hafa greinst 244.523 smit í heiminum og af þeim hafa 86.035 náð fullum bata. 10.030 hafa aftur á móti látist. 

Herða reglur vegna ítrekaðra brota

AFP

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri SÞ, varar við skelfilegum afleiðingum veirunnar. „Ef við leyfum veirunni að dreifa sér eins og skógareldur — sérstaklega á viðkvæmustu svæðum heims — mun það kosta milljónir lífið,“ segir Guterres.

Á sama tíma og æ fleiri greinast með kórónuveiruna á Ítalíu hefur forsætisráðherra landsins, Giuseppe Conte, framlengt útgöngubann í landinu til 3. apríl. Eins hafa frönsk yfirvöld ýjað að því að þau muni framlengja tveggja vikna útgöngubann þar. Innanríkisráðherra Frakklands segir fólk sem ekki fylgir banninu vera fávita sem setji aðra í hættu. 

Christophe Castaner sakar fólk um að gera of lítið úr hættunni. „Það er fólk sem telur sig nútímahetjur með því að brjóta reglur en staðreyndin er sú að það er fávitar.“

AFP

Vegna brota Frakka hafa ýmsir embættismenn hvatt til þess að reglurnar verði hertar enn frekar. Lögreglan í París ætlar til að mynda að loka göngustígum meðfram Signu og í Bordeaux hefur þegar verið gripið til þess ráðs að loka vinsælum gönguleiðum. Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, er ósáttur við hvað þjóðin tekur banninu með mikilli léttuð.

„Þegar ég sé að fólk heldur áfram að fara í almenningsgarðana, á ströndina eða á opna markaði sést að það hefur ekki skilið reglur útgöngubannsins,“ sagði Macron við blaðamenn í gær. 

AFP

Castaner bendir á að fólk sem fer að heiman að nauðsynjalausu sé að setja sig í hættu sem og fjölskyldur sínar og þá sem það elskar. En ekki bara það heldur einnig starfsmenn í heilbrigðiskerfinu sem verði alltaf til staðar þrátt fyrir fávisku og heimskulega hegðun annnarra. Þessi hópur sé alltaf til staðar fyrir aðra, að hjúkra og bjarga öðrum.

Óttast að 25 milljónir geti smitast í Kaliforníu

Í Argentínu hefur forseti landsins, Alberto Fernandez, tilkynnt útgöngubann sem tekur gildi í dag og gildir út mánuðinn. Í Brasilíu verður strönd Rio de Janeiro lokað og eins veitingastöðum. Bannið gildir í 15 daga.

AFP

Ríkisstjóri Kaliforníu, Gavin Newsom, segir að útgöngubannið sé til marks um sjálfstæði ríkisins innan Bandaríkjanna en Kalifornía er fjölmennasta ríki Bandaríkjanna. Aðgerðir Kaliforníu eru mun víðtækari en nokkurt annað ríki hefur gripið til í Bandaríkjunum, jafnvel New York-ríki þar sem smit eru mun fleiri en í Kaliforníu. 

AFP

Newsom greindi frá útgöngubanninu í samskiptamiðstöð almannavarna í Sacramento þar sem yfirleitt er greint frá náttúruhamförum eins og skógareldum og jarðskjálftum. Hann ræddi um hættuna sem veirunni fylgir fyrir íbúa Kaliforníu. Vísaði hann þar í lífspátölfræði, svipaða þeirri sem íslenskir vísindamenn kynntu í gær. Þar segir að yfir 25 milljónir, eða 56% íbúa ríkisins, gætu smitast á næstu átta vikum. „Ég tel tímabært að segja ykkur það sem ég ræði við fjölskyldu mína,“ sagði Newson á blaðamannafundinum. „Þetta er ekki viðvarandi ástand. Þetta er tímabundið,“ sagði hann. 

AFP

Í Bretlandi hefur forsætisráðherra landsins, Boris Johnson, sagt að straumhvörf geti orðið í baráttunni við kórónuveiruna innan 12 vikna í Bretlandi svo lengi sem fólk forðast samskipti við aðra.

Meðal þeirra sem hafa greinst með kórónuveiruna er samningamaður Evrópusambandsins í brexit-málum, Michel Barnier. Eins hefur Albert prins af Mónakó greinst sem og fjölmargir leikmenn í NBA-deildinni í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert