Íbúum í Connecticut, Illinois, Nevada, New Jersey, New York og Pennsylvaníu er nú, líkt og íbúum Kaliforníu, gert að halda sig heima nema í ýtrustu neyð. Tilskipun um heimasóttkví hefur verið gefin út í ríkjunum.
Tilskipanirnar tóku ýmist gildi í dag eða gera það á morgun en alls verða um 100 milljónir manna í heimasóttkví.
Á það meðal annars við um þrjár fjölmennustu borgirnar vestanhafs; Chicago, New York og Los Angeles.
„Við erum öll í sóttkví núna,“ sagði Andrew Cuomo, ríkisstjóri í New York. Þar taka hertar reglur gildi annað kvöld og verður fólk sektað ef það fer ekki að fyrirmælum. Á það við um lokun allra fyrirtækja sem sinna ekki lífsnauðsynlegum hlutverkum eins og matvæla- og lyfjasölu.
Staðfest dauðsföll af völdum kórónuveirunnar eru 249 í Bandaríkjunum og smit rúmlega 19 þúsund.
Donald Trump Bandaríkjaforseti fullyrti í gærkvöldi að ekki væri þörf á útgöngubanni í öllu landinu. Hann sagði að ástandið væri mun betra í öðrum landshlutum og að Bandaríkin væru að vinna stríðið við veiruna.