Landsþing demókrata í hættu

Joe Biden og Bernie Sanders berjast um útnefningu sem forsetaefni …
Joe Biden og Bernie Sanders berjast um útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins AFP

Forvali Demókrataflokksins í 15 ríkjum Bandaríkjanna hefur verið frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Þá hafa fjögur ríki, Ohio, Alaska, Wyoming og Havaí, gefið út að ekki verði kosið með hefðbundnum hætti heldur fari atkvæðagreiðsla eingöngu fram rafrænt eða með póstatkvæðum.

Svo gæti farið að fresta þyrfti landsþingi flokksins, sem halda á 13.-16. júlí, en þar verður forsetaefni flokksins formlega tilnefnt.

Tveir eru eftir í baráttunni, Joe Biden, fyrrverandi varaforseti sem leiðir, og öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders. Frambjóðendurnir hafa báðir aflýst öllum kosningafundum sínum en streyma þess í stað boðskapnum á samfélagsmiðlum að heiman.

Þessu nýtur framtíðarkeppinautur þeirra, Donald Trump Bandaríkjaforseti, góðs af. Segja má að frambjóðendur demókrata hafi misst sviðsljósið að undanförnu enda athygli almennings og fjölmiðla öll á veirunni og viðbrögðum forsetans. Daglegum upplýsingafundi Hvíta hússins er nú sjónvarpað á helstu stöðvum. Fundurinn stendur jafnan lengur en 90 mínútur og nýtir forsetinn sjálfur bróðurpart hans til að fara yfir stöðuna.

Frammistaða forsetans í veirumálum hefur hlotið blendin viðbrögð, en á sama tíma hefur stuðningur við hann aukist. 45,8% Bandaríkjamanna segjast nú styðja forsetann, samkvæmt samantekt gagnaveitunnar Five Thirty Eight og hefur hlutfallið ekki mælst hærra í embættistíð hans.

Aukinn stuðningur við ráðandi stjórnmálamenn á þessum óvissutímum er ekki bundinn við Bandaríkin, en sömu áhrifa gætir meðal annars í Frakklandi, Svíþjóð og hér á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert