Slegist um heimavarnafólk í Noregi

Rúmlega 700 liðsmenn norska heimavarnaliðsins mættu tafarlaust á vettvang í …
Rúmlega 700 liðsmenn norska heimavarnaliðsins mættu tafarlaust á vettvang í miðbæ Óslóar eftir ódæði Anders Breivik í júlí 2011. Nú er deilt um það í Noregi hvort rétt sé að taka fólk úr vinnu til þess að sinna skyldum sem það hefur boðið sig fram til að gegna í varnaliðinu þegar 400.000 Norðmenn eru skyndilega atvinnulausir vegna kórónuveiru. Ljósmynd/Wikipedia.org/Torgeir Haugaard

„Fjöldi fyr­ir­tækja hef­ur kvartað við okk­ur yfir að missa starfs­menn yfir í heima­varnaliðið,“ seg­ir Anne-Cecilie Kalten­born, for­stöðumaður þjón­ustu- og versl­un­ar­deild­ar norsku vinnu­veit­enda­sam­tak­anna NHO, við norska dag­blaðið VG. Norska heima­varnaliðið er eins kon­ar und­ir­deild norska hers­ins, liðsmenn þess gegna ekki bein­lín­is herþjón­ustu held­ur bjóða sig fram skyldu­laust til varn­ar landi og þjóð.

Kvört­un Kalten­born snýr að því að fjöldi vinn­andi fólks, sem ekki hef­ur verið sagt upp á norsk­um vinnu­markaði, þar sem fleiri en 400.000 manns eru nú skyndi­lega án vinnu, hef­ur verið kvatt í heima­varnaliðið, meðal ann­ars með það fyr­ir aug­um að gæta þess að Norðmenn laum­ist ekki í sum­ar­bú­staði, en Bent Høie heil­brigðisráðherra bannaði slík­ar ferðir ný­lega með lög­um eins og Morg­un­blaðið greindi frá í mars.

„Heima­varnaliðið ætti fyrst að kalla til sín það fólk sem þegar er án at­vinnu, ekki þá sem eru í vinnu enn sem komið er,“ seg­ir Kalten­born við VG en nú er gert ráð fyr­ir að í versta falli 79 pró­sent norskra vinnu­veit­enda segi fólki upp eða sendi það tíma­bundið heim á næst­unni með úrræði sem á norsku kall­ast permitter­ing og er væg­ara úrræði en upp­sögn, í raun tíma­bundið at­vinnu­hlé með bót­um og von um vinnu áður en langt um líður.

„Vinn­an fer öll til fjand­ans“

„Þetta er svona 50/​50 vinna og leik­skóli heima hjá mér og sam­býl­is­kon­unni,“ seg­ir Christer Heen Skot­land, starfsmaður norsku vatns- og orku­mála­stofn­un­ar­inn­ar, sem fyrr í vik­unni deildi degi sín­um milli þess að vera með heima­skrif­stofu, sem Norðmenn kalla hjem­mekontor, og að passa börn­in.

Líf hans breytt­ist hins veg­ar óvænt þegar hann var beðinn að mæta á vakt norska heima­varnaliðsins eins og skot. „Þetta er al­veg öm­ur­legt, vinn­an fer öll til fjand­ans og kon­an mín neyðist nú til að vera ein heima með börn­in all­an dag­inn,“ seg­ir Skot­land.

Á miðviku­dag­inn var Skot­land tjáð að hann þyrfti ekki að standa vakt á Gardermoen-flug­vell­in­um rétt utan við Ósló. Hann væri hins veg­ar á bakvakt og skyldi því halda sig heima og bíða frek­ari skip­ana. Þeir elstu ganga nefni­lega fyr­ir í varnaliðinu í Nor­egi þar sem lík­leg­ast er að þar fari fjöl­skyldu­fólk og þurfi því frek­ar á laun­um að halda.

„Það er reynd­ar skyn­sam­leg afstaða hjá liðinu, það sýn­ir því þá skiln­ing að all­ir geta ekki mætt fyr­ir­vara­laust,“ seg­ir Skot­land. „Heima­varnaliðið ætti þó að koma sér upp svo ríku­leg­um mann­skap að það geti rekið sig á sjálf­boðaliðum ein­um, þar með gæti það auðveld­lega notað fólk sem hef­ur misst vinn­una,“ seg­ir hann enn frem­ur.

Geta ekki valið úr fólk

Per Gunn­ar Gros­berg­haug, upp­lýs­inga­full­trúi norska heima­varnaliðsins, er ekki sam­mála Skot­land. „Við spyrj­um ekki her­menn­ina okk­ar um það hvort þeir hafi misst vinn­una áður en við köll­um þá til starfa og ætl­um okk­ur ekki að gera það.

Blaðamaður VG spyr þá hvort ekki sé skyn­sam­legra að þeir sem eru í vinnu enn sem komið er haldi hinum ann­áluðu hjól­um at­vinnu­lífs­ins gang­andi með því að vera þar.

„Við sinn­um okk­ar verk­efn­um, ég hef full­an skiln­ing á hjól­um at­vinnu­lífs­ins,“ svar­ar Gros­berg­haug. „All­ir hafa ein­hverj­um skyld­um að gegna, við get­um ekki valið úr fólk sem hef­ur misst vinn­una.“

Kalten­born hjá vinnu­veit­enda­sam­tök­un­um seg­ir það mjög al­var­legt mál að taka fólk úr vinnu til að gegna þegn­skyldu í heima­varnaliðinu. „Eins og staðan er núna [í kór­ónufar­aldr­in­um] snú­um við öll­um stein­um og stönd­um sam­an til að ástandið verði ekki verra hjá fyr­ir­tækj­um sem eru að reyna að halda at­vinnu­líf­inu gang­andi.“

Meira um norska heima­varnaliðið

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert