„Næsta vika verður sorglegasta og erfiðasta stund flestra Bandaríkjamanna,“ sagði Jerome Adams, landlæknir Bandaríkjanna, í gær. Hann sagði að vikan yrði eins konar „Pearl Harbor-stund“, eða „9/11-stund“ og vísaði þannig í eina erfiðustu atburði sem bandaríska þjóðin hefur gengið í gegnum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi um síðastliðna helgi að fram undan væru mörg dauðsföll vegna kórónuveirunnar.
Hann lofaði því að þau ríki Bandaríkjanna sem verst hefðu orðið úti myndu fá lyfjabirgðir, stuðning hersins og fleiri heilbrigðisstarfsmenn til vinnu.
Á sama fundi gaf Trump til kynna að dregið yrði úr tilmælum um félagslega einangrun fyrir páska.
„Við þurfum að opna landið okkar á nýjan leik. Við getum ekki gert þetta í ótal mánuði,“ sagði Trump og hélt áfram:
„Lækningin má ekki vera verri en sjúkdómurinn sjálfur.“
Um 9.200 hafa nú fallið frá vegna veirunnar í Bandaríkjunum og rúmlega 321.000 smitast. Um er að ræða flest smit kórónuveiru á heimsvísu. Flest dauðsfallanna hafa átt sér stað innan New York-ríkis en í gær voru tilkynnt 594 ný dauðsföll þar á einum sólarhring. Í ríkinu hafa komið upp svipað mörg tilfelli veirunnar og á Ítalíu í heild sinni en Ítalía er það land innan Evrópu sem hefur farið hvað verst út úr veirunni.
Joe Biden, einn forsetaframbjóðenda í forvali Demókrataflokksins, sagði í samtali við fréttastofu ABC í gær að Bandaríkin gætu gert miklu betur í að hefta útbreiðslu veirunnar en nú væri gert.