Bruninn á bílferjunni Scandinavian Star 7. apríl 1990, fyrir réttum 30 árum, hefur almennt verið kallaður stærsta óleysta sakamál á Norðurlöndum, jafnvel bara „morðið á Danmerkurferjunni“, eða drapet på danskebåten á Skandinavíutungum. Ferjan var á leið frá Ósló í Noregi til Frederikshavn í Danmörku þessa örlagaríku nótt með 383 farþega og 99 í áhöfn þegar eldur kom upp í henni, á tveimur stöðum með skömmu millibil, en síðar kviknuðu fleiri eldar.
Fyrsta brunans varð vart um tvöleytið um nóttina og logaði þá í sængurfötum fyrir utan eina af káetum ferjunnar. Þann eld tókst að slökkva. Nánast samtímis var tilkynnt um eld á gangi fyrir utan aðra káetu, skammt frá stigagangi á fjórða þilfari stjórnborðsmegin. Annað er nánast útilokað en að þar hafi eldur verið kveiktur af ásettu ráði, leiddu ítarlegar rannsóknir á slysinu í ljós. Eldurinn barst á örskammri stundu í þiljaðan vegg og þaðan um allan ganginn. Komið var í óefni.
Á aðeins átta til tólf mínútna tímabili fylltust flestir farþegagangar Scandinavian Star af baneitruðum reyk. Reykjarþykknið var slíkt að flestir farþegar hafa misst meðvitund á um 30 sekúndum og látist í kjölfarið. Hátt hlutfall kolmónoxíðs í reyknum um borð í ferjunni flýtti þessu ferli ef eitthvað var. Svo hratt breiddist eldurinn út að fljótt varð ljóst að slökkvi- og björgunartilraunir áhafnarinnar voru vonlausar. Skipstjórinn Hugo Larsen, sem síðar hlaut sex mánaða dóm í Hæstarétti Danmerkur fyrir að hafa ekki haldið lögboðið brunanámskeið fyrir áhöfnina, yfirgaf skip sitt klukkan 03:20.
Með Scandinavian Stars fórust 160 manns, 158 þegar í brunanum, einn síðar og eitt ófætt fóstur í móðurkviði. Af hinum látnu köfnuðu 125 en aðrir létust af öðrum orsökum, flestir þeirra brunnu til bana. Tæplega 30 pör fundust látin í faðmlögum, þar af nokkur sem lögst höfðu ofan á börn sín og reynt að skýla þeim með líkömum sínum án árangurs.
Engum blöðum er um það að fletta að kveikt var í ferjunni. Einnig höfðu nokkrar brunavarnadyr verið þvingaðar í opna stöðu með því að bera lím á segulnema þeirra, samkvæmt rannsókn dönsku lögreglunnar og Dantest, auk þess sem olíurör hafði verið tekið í sundur að því er virtist.
Scandinavian Star var dregin til Lysekil í Svíþjóð eftir atvikið en nóttina eftir fyrsta brunann kviknuðu eldar á fleiri stöðum í ferjunni og hafði eldur komið upp á alls sjö mismunandi stöðum er upp var staðið.
En hver, eða hverjir, stóðu á bak við ódæðið þessa nótt fyrir 30 árum á hafinu milli Noregs og Danmerkur? „Þegar kveikt er í á lokuðum vettvangi er engum blöðum um það að fletta að einhver, sem var um borð, stóð á bak við brunann,“ segir Nicolai Bjønness, lögmaður lögreglunnar í Ósló, í samtali við norska ríkisútvarpið í NRK í nýjum heimildaþáttum sem ríkisútvarpið sýnir um þessar mundir.
Kenningarnar eru einkum þrjár, en í heildina þó fleiri. Var bruninn á Scandinavian Star tryggingamál? Skipið var smíðað árið 1971, hafði gengið undir sjö nöfnum og verið í eigu nokkurra útgerða. Einni viku fyrir brunann seldi útgerðin Stena Cargo Line ferjuna amerísku útgerðinni Sea Escape Cruises, áður Scandinavian World Cruises. Þangað fór tryggingaféð. Sama dag er Daninn Niels-Erik Lund skráður eigandi, en deilt var um það fyrir dómi í Kaupmannahöfn árið 1993 hvort raunverulegur eigandi hefði verið danski fjárfestirinn Henrik Johansen sem þó var ekki skráður sem kaupandi skipsins fyrr en eftir brunann í viðskiptum þar sem hann keypti það ásamt fjórum öðrum ferjum.
Hlaut Johansen sex mánaða dóm í Kaupmannahöfn fyrir að hafa í raun átt Scandinavian Star 7. apríl 1990 og sett skipið til sjós án þess að brunavarnir um borð væru lögum samkvæmt, sem ekki var það eina, björgunarbátar voru í ólagi, brunakerfi ábótavant og rottugangur um borð. Norsk rannsókn árið 2011 sýndi þó loks fram á að svo var ekki, Niels-Erik Lund hafi í raun verið eigandinn þegar bruninn varð.
Önnur kenning er að danski flutningabílstjórinn Erik Mørk Andersen, sem sjálfur fórst með ferjunni, en hafði áður hlotið þrjá dóma fyrir íkveikju, tvo árið 1970 og einn 1986, hafi kveikt í Scandinavian Star. Andersen var vel í glasi meðan á siglingunni stóð, gerðist djarftækur til kvenna á barnum en hvarf að lokum einn til káetu sinnar, segir í ítarlegri umfjöllun NRK Dokumentar um brunann.
Vitað er að Andersen keypti norska dagblaðið VG í móttöku skipsins um klukkan hálftólf um kvöldið og eins er vitað að VG var notað sem kveikill þegar tendrað var í rúmfötunum um tvöleytið. Engar brunnar leifar af dagblaði fundust hins vegar í káetu Andersen við áralanga rannsókn brunans. Brunaleiðbeiningar sem hurfu af hurð káetu hans fundust í ferðatösku hans.
Andersen hafði enn fremur sést á göngum skipsins um svipað leyti og eldurinn blossaði upp og flestir farþeganna höfðu gengið til rekkju. Dómsmálið eftir húsbrunann árið 1986 varð kveikjan að geðrannsókn á Andersen. Lagði geðlæknir þar fram það mat að Andersen væri sveiflukenndur tilfinningalega (følelsesmessig ustabil) og ætti erfitt með að skilja afleiðingar gjörða sinna.
Þessi forsaga Danans gerði það að verkum að við frumrannsókn lenti hann ofarlega á lista grunaðra. Hins vegar sáu engin vitni hann kveikja í neinu, fingraför hans fundust hvergi nærri stöðunum þar sem í var tendrað. Föt hans og farangur sættu ítarlegri rannsókn sem gaf ekki til kynna að hann hefði haft neina eldfima vökva í fórum sínum. Nær öruggt þótti árið 1991 að Andersen væri sá seki en árið 2014 gaf lögreglan í Ósló það út, eftir að hafa lokað rannsókn sinni, að engin ástæða væri til að ætla, „á grundvelli sönnunargagna að Erik Mørk Andersen sé hinn seki“ eins og þar var skrifað. Hins vegar verður heldur aldrei afsannað að hann hafi orðið 160 manns að bana fyrir 30 árum.
Árið 2016 settu Flemming Thue Jensen og Terje Bergsvåg þá kenningu fram að hluti áhafnarinnar hefði kveikt eldana. Ætlunin þar hefði þó hvergi nærri verið að myrða 160 manns, eingöngu að brunabjöllur hljómuðu og farþegar og áhöfn kæmust í kjölfarið klakklaust frá ferjunni.
Fjöldi björgunarþyrlna og -skipa kom fljótlega á vettvang. Eftir að flestum, sem ekki voru þegar látnir, hafði verið komið frá borði buðu Heinz Steinhauser yfirvélstjóri, Gerard Guimbatan, 2. vélstjóri, og Hans Rytter rafvirki sig fram til að fara aftur um borð í Scandinavian Star til að aðstoða við björgunarstörf. Var boð þeirra þekkst og flogið með þá að ferjunni í þyrlu. Þremenningarnir voru allir starfsmenn Sea Escape Cruises en höfðu þó starfað á Scandinavian Star um árabil, ekki var þó ljóst hvaðan þeir þágu laun sín.
Rafvirkinn, Rytter, hafði upplifað fjóra eldsvoða á skipum sem hann starfaði á. Þrír þeirra höfðu átt sér stað um borð í skipum á vegum útgerðarinnar Sea Escape Cruises. Um leið og hann var kominn um borð aftur í Scandinavian Star tók hann, samkvæmt vitnisburði annars björgunarfólks, að loka dyrum, þannig að hurðirnar klemmdu slöngur slökkviliðsins og hindruðu vatnsstreymi um þær.
Var hann beðinn að láta af þessari háttsemi þegar í stað, ellegar mætti hann að synda í land. Síðar skýrði hann aðgerðir sínar sem svo að hann hefði ekki fallist á aðferðir slökkviliðsins og heldur kosið að loka dyrum til að hindra eldnærandi súrefnisflæði um ferjuna.
Rannsóknarnefnd norska Stórþingsins komst árið 2017 að þeirri niðurstöðu að gjörðir Rytter hefðu ekki verið til þess fallnar að bjarga nokkurri manneskju, hins vegar hefðu þær átt að sýna fram á færni í björgunaraðferðum skipsáhafna við bruna um borð.
Leif Andrén slökkviliðsmaður sagði einnig frá því við rannsóknina, að hann hefði spurt þremenningana, sem komu til baka um borð, um möguleika á að dæla sjó frá borði þar sem Scandinavian Star var tekin að hallast ískyggilega á stjórnborða. Hafi hann þá fengið þau svör frá þeim þremenningum að til þess þyrfti að slökkva á brunavatnsdælunum. Var þessum ráðum fylgt en þá blossaði bruninn upp á ný.
Hver ber sökina og hvað í raun gerðist á Scandinavian Star fyrir 30 árum verður varla ljóst úr þessu. Hitt er ljóst að þar hurfu 160 mannslíf af ásetningi einhvers eða einhverra sem annaðhvort töldu sig hafa hagsmuna að gæta eða sinntu einhverjum annarlegum hvötum, því öruggt er að kveikt var í ferju með hátt í 500 manns innanborðs aðfaranótt 7. apríl 1990 á leið milli Noregs og Danmerkur.
Þessi samantekt er byggð á bókinni Dødens Seilas eftir Kjell Ola Dahl, tæplega 20 greinum skandinavískra fjölmiðla um Scandinavian Star-málið auk einnar tilvísunar í heimildaþætti norska ríkisútvarpsins NRK, Scandinavian Star.