Hlífðarfatnaður og grímur sem Finnar tóku við frá Kína í gær verða ekki notuð á sjúkrahúsum í Finnlandi, eftir að prófanir leiddu í ljós að þau mættu ekki nauðsynlegum öryggiskröfum.
Það er huggun harmi gegn að það gæti verið hægt að nota grímurnar á hjúkrunarheimilum til að hindra smit frá starfsfólki til íbúa. Finnar eru annars sagðir nokkuð vel birgir af hlífðarfatnaði, enda hafa þeir löngum haldið varalager af slíku fyrir neyðarástand, að því er fram kemur á fréttavef finnska ríkisútvarpsins.
Landspítalinn á von á sautján tonnum af lækningabúnaði hvers konar frá Kína, en framkvæmdastjóri þjónustusviðs hjá Landspítalanum hefur sagt við mbl.is að ekki þyki ástæða til þess að efast um virkni þess búnaðar, enda þótt hann sé fenginn hjá birgjum sem ekki sé skipt við undir eðlilegum kringumstæðum.