Frakkar framlengja útgöngubann til 11. maí

Frakkar ætla að hafa vaðið fyrir neðan sig og ekki …
Frakkar ætla að hafa vaðið fyrir neðan sig og ekki létta á aðgerðum of fljótt. AFP

Útgöngubann í Frakklandi hefur verið framlengt til 11. maí, en Emanuel Macron, forseti landsins, tilkynnti það í sjónvarpsávarpi fyrr í kvöld. Útgöngubannið hefur verið í gildi frá því 17. mars.

Í ávarpinu sagði Macron að kórónuveirufaraldurinn væri að ná ákveðnum stöðugleika og vonin væri að vakna á ný. Hann sagði að hinn 11. maí myndi nýtt skeið hefjast sem einkenndist af framsækni og reglurnar yrðu lagaðar að stöðunni eins og hún yrði þá. AFP-fréttastofan greinir frá.

Dauðsföllum af völdum kórónuveirunnar fjölgaði lítillega á síðasta sólarhring í Frakklandi, en 574 dauðsföll voru staðfest. Tölurnar eru þó enn mun lægri en í síðustu viku. Þá hefur sjúklingum á gjörgæslu fækkað jafnt og þétt. Samtals hafa um 15 þúsund látist af völdum veirunnar í Frakklandi.

Ákvörðun Macrons kemur í framhaldi af tilkynningu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) þar sem varað var við því að aflétta of hratt þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til. Það gæti orsakað aðra bylgju af faraldrinum. Í tilkynningu kom einnig fram að aðeins bóluefni gæti fyllilega haldið veirunni í skefjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert