Hvað eiga mörg þeirra landa sem hafa tekist á við kórónufaraldurinn með góðum árangri sameiginlegt? Leiðtogar þessara landa eru margir hverjir konur.
Í grein viðskiptatímaritsins Forbes er fjallað um það hvað kvenkyns leiðtogar hafa margir hverjir tekist á við kórónuveirufaraldurinn af miklu áræði og yfirvegun. „Þessi faraldur leiðir í ljós að konur hafa það sem til þarf þegar á reynir,“ segir í greininni.
Minnst er á leiðtoga ýmissa landa, misstórra og fjölmennra, sem hafa með ákvörðunum sínum náð mun betri árangri í baráttunni við veiruna en ýmis önnur lönd með skjótum og staðföstum viðbrögðum.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, var strax frá upphafi hreinskilin um alvarleika veirunnar. Hún sagði þjóð sinni af hreinskilni að allt að 70% þjóðarinnar gætu smitast af veirunni ef ekki yrði brugðist rétt við. „Þetta er alvarlegt. Takið þetta alvarlega,“ sagði Merkel og þýska þjóðin gerði það. Sýnatökur hófust strax í upphafi og smit og dauðsföll eru mun færri en í öðrum löndum Evrópu eins og Bretlandi, Ítalíu og Spáni.
Tsai Ing-wen, leiðtogi Taívans, var á meðal fyrstu þjóðarleiðtoganna til að grípa til aðgerða. Strax í byrjun janúar þegar fyrstu vísbendingar um faraldurinn komu í ljós kynnti Ing-wen 124 aðgerðir sem farið var í til að koma í veg fyrir útbreiðslu í Taívan, án þess að grípa þyrfti til útgöngubanns eða álíka róttækra aðgerða. Nú hafa Taívanar sent 10 milljónir andlitsgríma til Bandaríkjanna og Evrópu, en fréttastöðin CNN sagði viðbrögð Ing-wen vera ein þau bestu í heiminum, en aðeins sex hafa látist í Taívan af völdum kórónuveirunnar.
Jacinda Arden, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, greip fljótt til útgöngubanns. Koma fólks til landsins var strax frá upphafi takmörkuð og fólk hvatt til að halda sig heima. Aðeins fjórir hafa látist á Nýja-Sjálandi af völdum veirunnar, en Arden hyggst þó ekki aflétta takmörkunum fyrr en sérfræðingar telja það öruggt.
Forbes fjallaði einnig um Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands, og þá sérstaklega sýnatökur Íslenskrar erfðagreiningar. „Flest lönd hafa takmarkað sýnatökur hjá þeim sem sýna einkenni. Ísland er ekki með neitt hálfkák. Miðað við höfðatölu hefur landið tekið sýni hjá fimm sinnum fleirum en Suður-Kórea og kynnt nákvæmt staðsetningarkerfi sem hefur komið í veg fyrir útgöngubann og jafnvel lokanir skóla,“ segir í greininni.
Þá var þeim Sönnu Marin, forsætisráðherra Finna, og Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, einnig hrósað fyrir sín viðbrögð. Marin hefur lagt áherslu á samstarf við áhrifavalda á netinu til að ná til ungs fólks og Solberg hélt blaðamannafund þar sem fullorðnir voru ekki velkomnir og aðeins spurningum barna svarað. Þá er einnig minnst á Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, í greininni.