Yfir 22 þúsund eru látin í Bandaríkjunum af völdum kórónuveirunnar samkvæmt tölum frá Johns Hopkins-háskólanum. Síðasta sólarhringinn létust 1.514 og hefur heldur fækkað á milli daga því daginn áður voru dauðsföllin 1.920 talsins.
Hvergi í heiminum hafa jafn margir látist og í Bandaríkjunum en þar eru staðfest smit einnig fleiri en annars staðar eða 555.313 manns.
Anthony Fauci, helsti sérfræðingur bandarískra stjórnvalda í faraldsfræði, segir að í næsta mánuði verði væntanlega hægt að hefja afnám aðgerða sem gripið hefur verið til til að stöðva útbreiðslu COVID-19 í landinu. Byggir hann þetta á því að allt bendir til þess að veirusmit séu að ná hámarki þar.
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hafði áður talað um að mögulega væri hægt að draga úr aðgerðum í kringum páska en þar í landi var páskahald svipað og víða annars staðar í heiminum; helgihald á netinu og allflestir heima hjá sér.
Fauci sagði í gærkvöldi að vonandi yrði hægt að afnema kvaðir í áföngum í maí. Það kæmi hins vegar ekki í ljós fyrr en í lok apríl. Hann segir að banni verði aflétt á mismunandi tímum eftir ríkjum og ekki verði öllu aflétt á sama tíma. Þetta sé ekki eins og að kveikja á Bandaríkjunum að nýju.
Stephen Hahn, yfirmaður matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna, segist vongóður um að hægt verði að opna að nýju 1. maí en enn sé of snemmt að segja til um það.
„Við viljum opna að nýju eins fljótt og auðið er,“ segir ríkisstjóri New York, Andrew Cuomo. Það verði hins vegar að fara varlega þegar þar að kemur. 758 létust í New York síðasta sólarhringinn.
Ríkisstjóri New Jersey, Phil Murphy, tekur í svipaðan streng og segir að ef það verði gert of snemma yrði það eins og að sprauta bensíni á eldinn.
Trump skrifaði á Twitter í gær: „Við erum að sigra og við munum sigra stríðið gegn ósýnilega óvininum.“
Alls búa 4,25% jarðarbúa í Bandaríkjunum en um fimmtungur þeirra 110 þúsund sem hafa látist af völdum COVID-19 frá því sjúkdómurinn greindist fyrst undir lok síðasta árs var búsettur í Bandaríkjunum.
Í grein sem birt var í New York Times í gær kemur fram að Trump hafi mistekist að bregðast nægjanlega fljótt við og Fauci lét þau ummæli falla í gær að það hefði verið hægt að bjarga mannslífum ef gripið hefði verið til aðgerða fyrr.
Trump gagnrýndi grein NYT á Twitter í gærkvöldi á sama hátt og oft áður: „Lygafrétt! Fréttin í NYT er lygi líkt og blaðið sjálft,“ skrifar forseti Bandaríkjanna á Twitter í gærkvöldi.
„Ég var gagnrýndur fyrir að vinna of hratt þegar ég gaf út Kínabann, löngu áður en flestir aðrir,“ skrifaði Trump jafnframt.