Trump hjólar í WHO og hótar að stöðva fjárframlög

Trump segir mistök WHO hafa tuttugufaldað fjölda kórónuveirutilfella í heiminum.
Trump segir mistök WHO hafa tuttugufaldað fjölda kórónuveirutilfella í heiminum. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætlar fara fram á það við ríkisstjórn sína að fjárframlög til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) verði stöðvuð á meðan „farið er yfir það hvernig stofnunin hefur brugðist í baráttunni gegn kórónuveirunni og reynt að hylma yfir útbreiðslu hennar“.

Þetta kom fram á daglegum blaðamannafundi vegna veirunnar sem haldinn var í Hvíta húsinu. Fjárframlög Bandaríkjanna til stofnunarinnar námu um 15 prósentum af öllum framlögum árið 2019. BBC greinir frá.

„WHO brást skyldum sínu og verður að sæta ábyrgð,“ sagði Trump jafnframt.

Þá sakaði Trump WHO um að setja pólitískan réttleika framar því að bjarga mannslífum með því að taka mark á því sem Kínverjar hafa miðlað um reynslu sína af veirunni. Trump hefur áður sakað WHO um að vera hlutdræga gagnvart Kína og hefur sagt stofnunina of Kína-miðaða í baráttunni gegn veirunni.

„Fjölmörg ríki hafa sagst ætla að hlusta á WHO og þau glíma nú við vandamál sem enginn hefði trúað að gætu komið upp,“ sagði forsetinn sem fór mikinn á fundinum. „Heimurinn hefur fengið alls konar rangar upplýsingar og ónákvæmni varðandi dánartíðni.“

Þá sagði hann að ef WHO hefði farið til Kína og sinnt eftirliti hefði mátt bjarga fleiri mannslífum. „Það að stofnunin reiddi sig alfarið á upplýsingar Kínverja hefur að öllum líkindum tuttugufaldað fjölda tilfella í heiminum, jafnvel meira.“

Þá bætti forsetinn við: „Svo mörg dauðsföll hafa orðið vegna þeirra mistaka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka