Trump segir völd sín „algjör“

Trump segir völd sín algjör þegar kemur að því að …
Trump segir völd sín algjör þegar kemur að því að aflétta þeim takmörkunum sem eru í gildi vegna kórónuveirunnar. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fullyrðir að völd sín séu „algjör“ þegar kemur að því að aflétta takmörkunum sem settar voru á í Bandaríkjunum til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta stangast á við þekkingu lögfróðra sem og ríkisstjóra á stjórnarskránni. Þar kveður á um að það sé á verksviði einstakra ríkja að tryggja öryggi borgaranna sem og allsherjarreglu. BBC greinir frá.   

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Trump efndi til. Fundurinn þótti heldur líflegur því forsetinn fór að munnhöggvast við blaðamenn. 

„Forseti Bandaríkjanna ræður,“ sagði Trump þegar blaðamenn spurðu hann hvort hann hefði lagalegt vald til að framkvæma þetta. Hann vísaði meðal annars til ýmissa ákvæða í stjórnarskránni sem veittu forsetanum slík völd, án þess að tilgreina þau nánar.

Svar hans var afdráttarlaust en jafnframt tók hann fram að ríkisstjórar væru meðvitaðir um þetta. „Við ætlum jafnframt að vinna með ríkjunum,“ sagði hann. 

Breytingar eru í farvatninu líklega 1. maí því daginn áður, 30. apríl, renna núverandi takmarkanir úr gildi. Þar segir að 10 manns eða fleiri megi ekki koma saman. 

Alls hafa rúmlega 682 þúsund kórónuveirusmit verið skráð í Bandaríkjunum og dauðsföll af völdum COVID-19 sjúkdómsins eru orðin 23.608. Í New York-borg hafa um 190 þúsund smit greinst og 10 þúsund látist. Þetta er það mesta á heimsvísu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert