„Það hjálpar ekki að skella skuldinni á aðra. Veiran þekkir engin landamæri. Við verðum að vinna náið saman gegn Covid-19.“
Þetta segir utanríkisráðherra Þýskalands, Heiko Maas, í tísti þar sem hann bregst við þeirri ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta að hætta fjárveitingum til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Trump tilkynnti þessa ákvörðun í gær og sagðist vilja að farið væri yfir það hvernig stofnunin hefði brugðist í baráttunni við veiruna og reynt að hylma yfir útbreiðslu hennar.
„WHO brást skyldum sínu og verður að sæta ábyrgð,“ sagði forsetinn.
Maas segir það vera eina bestu fjárfestinguna sem í boði er, að styrkja Sameinuðu þjóðirnar, og þá einkum fársveltu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, til að styðja við þróun og dreifingu veiruprófa og bóluefna.
Schuldzuweisungen helfen nicht. Das Virus kennt keine Grenzen. Wir müssen gegen #COVID19 eng zusammenarbeiten. Eine der besten Investitionen ist es, die @UN, allen voran die unterfinanzierte @WHO, zu stärken, z.B. bei der Entwicklung und Verteilung von Tests und Impfstoffen. https://t.co/ugVbnZFx7R
— Heiko Maas 🇪🇺 (@HeikoMaas) April 15, 2020
Bandaríkin leggja árlega mikið fram til stofnunarinnar og nam framlag ríkisins 400 milljónum Bandaríkjadala á síðasta ári, sem samsvarar rúmlega 57 milljörðum íslenskra króna.
Ákvörðun Trumps, sem sakar stofnunina um að hafa sett pólitískan rétttrúnað framar aðgerðum til að bjarga lífum, hefur mætt mikilli gagnrýni.
Maas hefur áður gagnrýnt ríkisstjórn Bandaríkjanna vegna viðbragða hennar við veirufaraldrinum. Sagði hann í samtali við tímaritið Der Spiegel í síðustu viku að Bandaríkin hefðu lengi gert lítið úr veirunni.
„Það er í raun enginn ágreiningur um það, ekki einu sinni í Bandaríkjunum, að margar ráðstafanirnar voru gerðar of seint.“