Svo gæti farið að boða þyrfti til fjórðu þingkosninganna á rúmu ári í Ísrael eftir að frestur sem forseti landsins hafði veitt Benny Gantz, formanni Bláhvíta bandalagsins, til að mynda ríkisstjórn rann út. Benjamin Netanjahú, starfandi forsætisráðherra, hafði áður gert árangurslausa tilraun til að mynda ríkisstjórn.
Takist þinginu ekki að koma sér saman um forsætisráðherra á næstu þremur vikum þarf að boða til kosninga, í síðasta lagi 4. ágúst.
Stjórnarkreppa hefur ríkt í Ísrael undanfarið ár frá því gengið var til kosninga í apríl í fyrra. Í þeim bauð miðjuflokkurinn Bláhvíta bandalagið, sem er bandalag þriggja flokka, fram í fyrsta sinn og náði 35 þingsætum, jafmörgum og Likud-flokkur Netanjahús. Hvorki hefur gengið né rekið að mynda ríkisstjórn síðan, og kosningar í september í fyrra og mars í ár hafa engu breytt.
Eftir að Netanjahú mistókst að mynda stjórn eftir kosningarnar í síðasta mánuði fól meirihluti þingsins Gantz að mynda nokkurs konar þjóðstjórn með þátttöku Likud-bandalagsins. Þær viðræður fóru þó út um þúfur í vikunni.
Samkvæmt heimildum breska ríkisútvarpsins strönduðu þær viðræður á andstöðu Bláhvíta bandalagsins við frumvarp sem Netanjahú hefur í hyggju að leggja fram og heimilar ríkisstjórninni að snúa úrskurðum Hæstaréttar, svo sem mögulegum úrskurðum um að forsætisráðherra þurfi að víkja úr embætti.
Slíkt kæmi Netanjahú vel því hann hefur einmitt verið ákærður fyrir margvísleg brot í starfi, mútuþægni og fjársvik. Áttu réttarhöld að hefjast í þessum mánuði en þeim hefur verið frestað vegna kórónuveirufaraldursins.