Cuomo og Trump ræða ástandið í New York

Andrew Cuomo ríkisstjóri New York og Donald Trump Bandaríkjaforseti ætla …
Andrew Cuomo ríkisstjóri New York og Donald Trump Bandaríkjaforseti ætla að funda í Hvíta húsinu á morgun vegna kórónuveirunnar. Þeir hafa gagnrýnt hvort annan harðlega vegna viðbragða við útbreiðslu kórónuveirunnar. AFP

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, hefur þegið fundarboð Donalds Trump Bandaríkjaforseta og munu þeir hittast síðdegis á morgun á skrifstofu forsetans í Hvíta húsinu. Cuomo hefur gagnrýnt Trump og stjórn hans harðlega fyrir aðgerðaleysi í baráttunni gegn kórónuveirunni. 

New York er þungamiðja kórónuveirufaraldursins í Bandaríkjunum. Þriðjungur rúmlega 40 þúsund dauðsfalla í landinu hafa orðið í ríkinu. Trump hefur bæði lofað og gagnrýnt viðbrögð Cuomo við faraldrinum. 

„Þau eru að ná tökum á þessu í New York, margt gott er að gerast í New York,“ sagði Trump á daglegum blaðamannafundi sínum vegna veirunnar í dag. Dauðsföllum og spítalainnlögnum fer fækkandi í ríkinu. „Við erum hér til að styðja ríkisstjóranna og hjálpa og það er það sem við erum að gera,“ sagði Trump. 

Fyrir helgi tók Trump Cuomo fyrir á Twitter og sakaði ríkisstjórann um að „betla“ búnað og fjármagn frá alríkinu. „Cuomo ríkisstjóri ætti að verja meira tíma í að framkvæma og minni tíma í að kvarta. Farðu og kláraðu verkið. Hættu að tala!“ sagði í tísti Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert