Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, hefur þegið fundarboð Donalds Trump Bandaríkjaforseta og munu þeir hittast síðdegis á morgun á skrifstofu forsetans í Hvíta húsinu. Cuomo hefur gagnrýnt Trump og stjórn hans harðlega fyrir aðgerðaleysi í baráttunni gegn kórónuveirunni.
New York er þungamiðja kórónuveirufaraldursins í Bandaríkjunum. Þriðjungur rúmlega 40 þúsund dauðsfalla í landinu hafa orðið í ríkinu. Trump hefur bæði lofað og gagnrýnt viðbrögð Cuomo við faraldrinum.
„Þau eru að ná tökum á þessu í New York, margt gott er að gerast í New York,“ sagði Trump á daglegum blaðamannafundi sínum vegna veirunnar í dag. Dauðsföllum og spítalainnlögnum fer fækkandi í ríkinu. „Við erum hér til að styðja ríkisstjóranna og hjálpa og það er það sem við erum að gera,“ sagði Trump.
Fyrir helgi tók Trump Cuomo fyrir á Twitter og sakaði ríkisstjórann um að „betla“ búnað og fjármagn frá alríkinu. „Cuomo ríkisstjóri ætti að verja meira tíma í að framkvæma og minni tíma í að kvarta. Farðu og kláraðu verkið. Hættu að tala!“ sagði í tísti Trump.