Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því á fréttamannafundi vegna kórónuveirunnar undir kvöld að bann við flutningi fólks til Bandaríkjanna vegna veirunnar myndi gilda næstu 60 daga, að minnsta kosti.
Trump greindi frá áformum sínum á Twitter í gærkvöldi og sagði í kvöld að markmiðið væri að vernda störf Bandaríkjamanna en 22 milljónir Bandaríkjamanna hafa misst vinnuna síðan samkomubann tók gildi í landinu.
60 daga hlé verður gert á útgáfu græna kortsins, sem veitir útlendingum rétt til vinnu í Bandaríkjunum. Trump sagði að ákvörðun um framlengingu yrði tekin í sumar.
„Með þessu verða atvinnulausir Bandaríkjamenn fremstir í röðinni þegar efnahagslífið í landinu tekur aftur við sér,“ sagði Trump í kvöld.
Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkt í kvöld aðgerðapakka vegna heimsfaraldursins að verðmæti 480 milljörðum bandaríkjadala.