Urban Persson, bæjarstjórnarmaður í sænska sveitarfélaginu Storfors, segist hafa farið til Stokkhólms fyrir þremur vikum í þeim erindagjörðum að smitast af kórónuveirunni. Að hans sögn fór hann með vinkonu sinni, sem sé læknir og vilji líka smitast. „Þetta var skemmtilegt, en ég fékk því miður ekki veiruna,“ segir Persson í samtali við sænska ríkissjónvarpið, SVT.
Við komuna aftur til Storfors hugðist Persson mæta á fund í fjárhagsnefnd sveitarfélagsins eins og ekkert hefði í skorist. Er sveitarstjórinn, sósíaldemókratinn Hans Jildesten, spurði hann hvort orðrómurinn væri sannur um að hann hefði farið til Stokkhólms gagngert til að fá veiruna, játaði hann því.
Bað sveitarstjórinn hann þá um að yfirgefa fundarsalinn til að tryggja að hann smitaði ekki aðra nærstadda, enda óvíst á þeim tímapunkti hvort honum hefði tekist ætlunarverkið: að næla sér í smit. Persson brást ókvæða við og hefur nú kært Jildesten sveitarstjóra til umboðsmanns sænska þingsins (Justitieombudsmannen).
Í samtali við SVT játar Persson að hegðun hans sé þvert á hefðbundin viðbrögð fólks við veirunni. „Jú, það má segja það. En ég sé enga hættu fyrir sjálfan mig af veirunni. Það hefur hvorki kosti né ókosti fyrir mig,“ segir hann. Aðspurður segist hann telja viðbrögð sveitarstjórans óréttmæt. „Hann [sveitarstjórinn] sagðist geta dáið af völdum veirunnar þar sem hann er með sykursýki. Það hefur ekkert með málið að gera. Jafnvel þótt hann væri 90 ára þá hefur hann ekki rétt á að útiloka mig frá fundum,“ segir Persson og bætir við að viðbrögðum fólks við faraldrinum megi lýsa sem múgæsingu (s. hysteri) sambærilegri við þá sem einkenni loftslagsumræður.