Angela Merkel kanslari Þýskalands segir að þýska þjóðin verði að halda áfram að vera „skynsöm og varkár“ í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum þar sem að hann sé enn á byrjunarstigi.
„Þetta er ekki lokakaflinn heldur bara byrjunin. Faraldurinn mun fylgja okkur í langan tíma,“ sagði Merkel á þýska þinginu áður en hún tók þátt í fjarfundi með öðrum leiðtogum Evrópusambandsríkja. Hún lagði áherslu á evrópska samvinnu í baráttunni gegn veirunni.
Tæplega 150 þúsund smit hafa greinst í Þýskalandi og fjöldi dauðsfalla kominn yfir 5 þúsund. Merkel hefur sagt að faraldurinn sé mesta ógn við líf og heilsu almennings frá síðari heimsstyrjöldinni. BBC greinir frá.
Þá sagði hún að Þýskaland ætti að vera tilbúið til þess að stórauka framlag sitt til Evrópusambandsins og að það framlag yrði í „anda samstöðu“ en í takmarkaðan tíma.
Ítalir, sem hafa farið hvað verst út úr faraldrinum í Evrópu, hafa verið duglegir að þrýsta á önnur Evrópusambandsríki að samþykkja ábyrgð á lánum sem eru hluti af aðgerðapakka til að vernda efnahag Evrópusambandsríkja.
Þýskaland, Holland og Austurríki hafa hingað til verið á móti sameiginlegri ábyrgð á svokölluðum kórónuveiruskuldabréfum (e.Coronabonds) en samkvæmt núgildandi reglugerðum Evrópusambandsins er ekki hægt að gera einstök ríki ábyrgð fyrir skuldum annars ríkis.
Búist er við því að leiðtogar Evrópusambandsríkja samþykki í dag efnahagsaðgerðapakka upp á 540 milljarða evra til að vernda evrópsk störf, fyrirtæki og ríki sem hafa lent í mestum vandræðum vegna heimsfaraldursins. Ítalía og önnur ríki vilja að upphæðin nemi allt að 1,5 billjónum evra.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur tekið sér stöðu með Ítölum og Spánverjum hvað þetta varðar og varar hann við því að tilvera Evrópusambandsins sé í hættu.