Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur gagnrýnt ríkisstjóra Georgíu, sem er samflokksmaður forsetans, en Trump er ekki sammála þeirri ákvörðun ríkisstjórans að heimila smærri fyrirtækjum á borð við snyrtistofum og húðflúrstofum að opna á nýjan leik í núverandi ástandi.
Ríkisstjórn Trumps greindi í síðustu viku frá þeim skrefum sem stjórnvöld hyggjast stíga til að koma atvinnulífinu smátt og smátt aftur á skrið á meðan kórónuveirufaraldurinn er í rénun, en stjórnvöld segja mikilvægt að gæta vel að öllum sóttvörnum á sama tíma til að hefta útbreiðslu veirunnar sem hefur haft gríðarleg áhrif um heim allan.
Brian Kemp, ríkisstjóri Georgíu, og Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, sem eru báðir repúblikanar eins og Trump, hafa greint frá því að þeir ætli sér að taka mun stærri og umfangsmeiri skref í því að koma atvinnulífinu aftur í gang.
Kemp segir að frá og með morgundeginum megi líkamsræktarstöðvar, keilusalir, húðflúrstofur, hárgreiðslustofur, snyrtistofur og önnur smærri fyrirtæki opna á nýjan leik.
Trump sagði á daglegum upplýsingafundi sínum í gær, að það væri of snemmt að stíga þessi skref. Kemp tók þó fram að fyrirtækin mættu ekki opna á ný eins og ekkert hefði í skorist. Þau verði að gæta að þeim heilbrigðisviðmiðum sem séu í gildi.
„Ég sagði við ríkisstjóra Georgíu, Brian Kemp, að ég sé afar ósammála þeirri ákvörðun hans um að opna ákveðna staði sem eru þvert á viðmið um fyrstu skref (e. Phase One guidelines),“ sem voru birt í síðustu viku og lúta að því hvernig eigi að hefja atvinnurekstur á nýjan leik á meðan faraldurinn geisar enn.
Á meðal þess sem stjórnvöld hafa sagt er að smitum verður að hafa fækkað í 14 daga í röð á svæðum áður en tekin verður ákvörðun um að heimila fyrirtækjum að hefja rekstur á nýjan leik.
„Ég virði hann og ég mun leyfa honum að taka þessa ákvörðun. Myndi ég gera þetta? Nei. Ég myndi hafa þau lokuð örlítið lengur. Ég vil vernda mannslíf,“ sagði Trump.