Li Zehua, kínverskur blaðamaður sem var eltur uppi og handsamaður af lögreglumönnum í Wuhan-borg 26. febrúar, sást ekki ekki meir eftir það. Þangað til í gær þegar hann birti myndskeið af sjálfum sér þar sem hann sagði að hann væri að koma úr sóttkví.
Zehua náði að streyma frá eltingarleiknum við lögreglu og þegar hann var handtekinn. Í myndskeiðinu sem hann birti í gær segist hann vera að koma úr mjög langri sóttkví sem hann hafi verið skipaður í vegna þess að hann hafi verið á „viðkvæmum svæðum.“
Hann hafi því fyrst verið í tveggja vikna sóttkví í Wuhan-borg en svo snúið aftur til heimbæjar síns þar sem við hefði tekið enn lengri sóttkví. Á meðan sóttkvínni stóð hafi öll símtæki verið tekin af honum sem og tölva.
Li Zehua hvarf í lok febrúar, stuttu eftir að annar blaðamaður hafði horfið, Chen Qiushi. Í fyrsta myndskeiðinu sem Zehua birti frá Wuhan-borg útskýrði hann af hverju hann væri kominn þangað.
„Áður en ég kom til Wuhan sagði vinur minn, sem starfaði í fjölmiðlum, að öllum neikvæður fréttum um faraldurinn hefði verið safnað saman af yfirvöldum. Fjölmiðlar í borginni gátu aðeins sagt frá jákvæðum fréttum, eins og þegar sjúklingum batnaði og þess háttar. En það á eftir að koma í ljós hvort að það sé satt, þetta er bara það sem ég heyrði frá vinum mínum,“ sagði Zehua.
Í fréttmyndskeiðum sínum fjallaði Zehua meðal annars um yfirhylmingu nýrra smita og annríki í líkbrennsluhúsi. Horft var á myndskeiðin milljón sinnum á kínverskum samfélagsmiðlum, YouTube og Twitter.
Zehua fullyrðir að á meðan hann hafi verið í sóttkví hafi lögreglan gætt að mannréttindum hans á faglegan hátt. „Lögreglan gekk fram á siðaðan hátt allan þennan tíma, passaði upp á að ég hvíldist nóg og fengi nóg að borga. Þeir komu einnig mjög vel fram við mig.“
„Ég er þakklátur öllum þeim sem hlúðu að mér. Ég vona að þeir sem eru veikir vegna faraldursins jafni sig. Guð blessi Kína,“ sagði hann sömuleiðis.
Tveggja kínverskra fjölmiðlamanna sem sögðu fréttir frá Wuhan-borg er enn saknað. Chen Qiushi er enn týndur samkvæmt Twitter-aðgangi sem vinir hans halda úti. Þá er annar fjölmiðlamaður sem miðlaði fréttum frá Wuhan-borg, Fang Bin, einnig týndur og ekki hefur heyrst frá honum síðan í febrúar.