Einn stærsti framleiðandi sótthreinsiefna í heiminum hefur varað við því að vörur fyrirtækisins séu notaðar á mannslíkamann, eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gaf það í skyn í gær að hugsanlega væri hægt að innbyrða sótthreinsandi efni til að losna við kórónuveiruna. BBC greinir frá.
Reckitt Benckiser, eigandi Lysol og Dettol, segir að ekki eigi að innbyrða eða sprauta efnunum inn í líkamann undir neinum kringumstæðum.
Forsetinn hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir ummæli sín í gær og læknar hafa stigið fram á samfélagsmiðlum og varað fólk við því að nota efnin í þessum tilgangi. Það geti einfaldlega verið banvænt. Sótthreinsiefni séu mjög hættuleg, jafnvel bara ef þau komast í snertingu við húð. Þá séu augu og öndunarfæri einnig viðkvæm fyrir efnunum.
Benckiser, sem einnig á vörumerkin Vanish og Cillit Bang, segir að öll sótthreinsiefni og hreinlætisvörur sem fyrirtæki hans framleiða eigi bara að nota og meðhöndla samkvæmt leiðbeiningum. Þá var fólk hvatt til að lesa allar leiðbeiningar og varúðarmerkingar.
Trump velti upp þessum hugmyndum sínum á daglegum upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í Hvíta húsinu í gær. En þar voru kynntar niðurstöður rannsóknar sem sýndu fram á að sólarljós og hiti veiklaði veiruna og að klór og ísóprópanól gæti drepið hana í munnvatni og öðrum vökva frá öndunarfærum.
Forsetinn lagði til að rannsakað yrði hvort hægt væri að dæla sótthreinsivökva í fólk sem meðferð við kórónuveirunni. Og jafnframt lagði hann til hvort ekki væri hægt að beina útfjólubláum geislum á líkama sjúklinga með COVID-19.
„Maður sér hvernig þetta hverfur á innan við mínútu með notkun sótthreinsiefna. Á mínútu. Er einhver leið til þess að við getum gert eitthvað í þeim dúr, með því að dæla þessum efnum inn í líkamann?“ sagði forsetinn meðal annars. „Því eins og þið sjáið þá getur þetta farið í lungun og valdið miklum skaða, svo það væri áhugavert að kanna þetta.“