Ummæli um sótthreinsivökva voru kaldhæðni

Donald Trump á blaðamannafundinum í kvöld.
Donald Trump á blaðamannafundinum í kvöld. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að um kaldhæðni hafi verið að ræða þegar hann lagði til að rannsakað yrði hvort hægt væri að dæla sótthreinsivökva í fólk sem meðferð við kórónuveirunni.

Læknar hafa varað við þessu og segja að þetta gæti reynst fólki banvænt.

Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu var Trump spurður út í fregnir frá ríkinu Maryland um fjölgun neyðarútkalla eftir ummæli hans vegna þess að fólk hafi innbyrt sótthreinsandi efni. „Ég get ekki ímyndað mér hvers vegna,“ svaraði hann. „Ég get ekki í myndað mér það.“

Í síðustu viku sendi skrifstofa ríkisstjóra Maryland frá sér tilkynningu þar sem hann varaði við því að innbyrða eða sprauta sótthreinsivökva eftir að yfir 100 símtöl höfðu borist, að því er BBC greindi frá. 

Trump sagði að ummælin hefðu verið kaldhæðni. Spurði blaðamaðurinn þá hvort hann bæri einhverja ábyrgð á auknum fjölda símtala. „Nei.“

Trump ásamt Mike Pence varaforseta.
Trump ásamt Mike Pence varaforseta. AFP

Rannsaka Kínverja

Forsetinn sagði einnig á fundinum að Bandaríkjastjórn hefði hafið „mjög alvarlega rannsókn“ á viðbrögðum Kínverja við kórónuveirunni. „Við erum ekki ánægðir með Kína og við erum ekki ánægðir með þetta mál í heild sinni vegna þess að ég tel að það hefði verið hægt að stöðva það strax í byrjun,“ sagði hann. „Það hefði verið hægt að stöðva þetta snögglega og þá hefði þetta ekki breiðst út um allan heiminn.“

Hefur ekki íhugað að fresta kosningunum

Aðspurður sagðist hann ekki hafa íhugað að fresta forsetakosningunum í nóvember vegna veirunnar. „Af hverju ætti ég að gera það? Þriðji nóvember. Það er góð tala.“

Hann sagði allar hugmyndir um það vera „upploginn áróður“.

Frá blaðamannafundinum í kvöld.
Frá blaðamannafundinum í kvöld. AFP

„Á hann skilið að vera endurkjörinn?"

Trump var einnig spurður: „Ef bandarískur forseti missir fleiri Bandaríkjamenn á sex vikum en létust í öllu Víetnamstríðinu, á hann skilið að vera endurkjörinn?“

Hann svaraði: „Já, við höfum missti margt fólk en ef þú horfir á upphaflegu spána, 2,2 milljónir, þá erum við að stefna í 60 til 70 þúsund,“ sagði hann.

„Það er allt of mikið – ein manneskja er of mikið. Ég tel að við höfum tekið margar mjög góðar ákvarðanir,“ bætti hann við. „Stóra ákvörðunin var að loka landamærunum og banna fólki að koma frá Kína.“

Hann sagði einnig að ríkisstjórnin hefði staðið sig „ótrúlega vel“ hvað varðar öndunarvélar.

Var spurður út í heilsu Kim Jong-un 

Vangaveltur hafa verið uppi um heilsufar Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. Spurður hvort hann hefði upplýsingar um heilsu hans sagði Trump: „Já hef mjög góða hugmynd um hana en get ekki talað um það núna. Ég óska honum bara góðs gengis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert