Stjórnvöld í tólf Evrópuríkjum hafa ritað framkvæmdastjórn Evrópusambandsins bréf þar sem hvatt er til þess að reglum um neytendavernd flugfarþega verði breytt. Samkvæmt núgildandi reglum Evrópusambandsins, sem einnig gilda á Íslandi, er flugfélögum skylt að endurgreiða að fullu flugferðir sem falla niður innan sjö daga. Verði vilji ríkisstjórnanna að veruleika yrði flugfélögum heimilt að bjóða viðskiptavinum inneignarnótu til langs tíma í stað endurgreiðslu.
Í bréfinu segir að breytingunni, sem yrði tímabundin, sé ætlað að aðstoða fyrirtæki í lausafjárvanda og viðhalda samkeppnishæfni evrópskra flugfélaga en þó þannig að sameiginleg og nauðsynleg neytendavernd verði tryggð. Þannig yrði gildistíma inneignarnótanna samræmdur og tryggt að neytendur ættu rétt á endurgreiðslu ef inneignin hefur ekki verið nýtt er gjafabréfið rennur úr gildi að nokkrum árum liðnum.
Mörg flugfélög á borð við Air France, KLM og Ryanair hafa virt reglurnar að vettugi síðustu misseri og sagt viðskiptavinum að þeir verði að bíða í nokkra mánuði eftir endurgreiðslu. Önnur flugfélög hafa á sama tíma hunsað óskir um endurgreiðslu.
Undir bréfið rita fulltrúar Belgíu, Búlgaríu, Frakklands, Írlands, Grikklands, Hollands, Kýpur, Lettlands, Möltu, Póllands, Portúgals og Tékklands. Talið er að allt að 20 Evrópusambandsríki, þeirra á Þýskaland, séu hlynnt tímabundnum breytingum á reglunum en sá stuðningur ætti að nægja til að reglubreytinga innan ráðherraráðs Evrópusambandsins.
Tillögunni svipar til hugmynda stjórnvalda hér á landi um að heimila ferðaþjónustufyrirtækjum að endurgreiða viðskiptavinum með inneignarnótum, en þó með þeim fyrirvara að hugmyndir íslenskra stjórnvalda eru óútfærðar og ekkert verið minnst á mögulega endurgreiðslu sé inneignarnóta ekki nýtt. Taldi Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, þá hugmynd stangast á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.