Yfirvöld í Kanada banna hríðskotavopn

22 létust í árásinni sem átti sér stað þann 18. …
22 létust í árásinni sem átti sér stað þann 18. apríl síðastliðinn. AFP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, tilkynnti í dag að sett yrði bann á eignarhald og notkun á hernaðarlegum hríðskotavopnum í landinu. Bannið er sett í kjölfar skotárásar í aprílmánuði sem varð til þess að 22 létu lífið. AFP-fréttastofan greinir frá.

„Þessi vopn eru hönnuð í einum tilgangi og aðeins einum tilgangi: að drepa sem flesta á sem skemmstum tíma,“ sagði Trudeau. „Það er hvorki þörf né staður fyrir slík vopn í Kanada,“ bætti hann við.

Skotárásin sem um ræðir átti sér stað þann 18. apríl síðastliðinn í Nova Scotia og er sú mannskæðasta í sögu Kanada. Lögregla leitaði árásarmannsins í 13 tíma eftir árásina en hann var að lokum skotinn til bana.

Lögreglan hefur greint frá því að árásarmaðurinn, Gabriel Wortman, 51 árs tannsmiður, hafi haft nokkrar byssur í fórum sínum og minnsta kosti ein þeirra hafi flokkast sem hríðskotabyssa.

Trudeau sagði enga þörf fyrir hríðskotavopn í Kanada.
Trudeau sagði enga þörf fyrir hríðskotavopn í Kanada. AFP

Trudeau sagði í yfirlýsingu sinni að þeir sem ættu slík vopn fengju tveggja ára frest til að skila þeim inn til yfirvalda, en sá hátturinn er hafður á svo ríkið verði ekki skaðabótaskylt. En að lokum yrðu sett lög sem skylduðu eigendur vopnanna til að skila þeim inn.

„En frá og með deginum í dag er ólöglegt að kaupa, eða flytja inn hernaðarleg hríðskotavopn í þetta land.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert