75 ár síðan nasistar lyftu járnhælnum

Hluti konungsfjölskyldunnnar sneri aftur úr útlegð í London 7. maí …
Hluti konungsfjölskyldunnnar sneri aftur úr útlegð í London 7. maí og veifar þjóð sinni hér af svölum konungshallarinnar. Hákon VII konungur, Märtha krónprinsessa og börn þeirra Ólafs krónprins, Astrid, Haraldur, nú Noregskonungur, og Ragnhild. Krónprinsinn sneri aftur til Noregs 13. maí. Ljósmynd/Wikipedia.org/Þjóðminjasafnið í Ósló

Frelsisdagurinn, eða frigjøringsdagen, 8. maí 1945, bar með sér atburði sem lengi munu uppi verða í Noregssögunni. Þýskaland var fallið, Adolf Hitler hafði stytt sér aldur í vígi sínu í Berlín 30. apríl, nýskipaður ríkiskanslari, áróðursstjórinn fyrrverandi Josef Göbbels, gegndi hinu nýja embætti sínu í nákvæmlega einn dag áður en hann og öll fjölskylda hans styttu sér aldur 1. maí. Draumur foringjans um þriðja ríkið var kominn að fótum fram.

Er þarna var komið sögu hafði hernám Þjóðverja í Noregi staðið óslitið rúm fimm ár, frá 9. apríl 1940 þegar þýskur innrásarher réðst óvænt og af fullu afli á Noreg og kom íbúum landsins í fullkomlega opna skjöldu svo sem rifjað var upp þann sama dag nú í vor þegar 80 ár voru liðin.

Rúmlega 300.000 þýskir hermenn voru staddir í Noregi vorið 1945 og ætluðu, þrátt fyrir fall Berlínar, nokkrir af áköfustu foringjum nasista í Skandinavíu sér að halda áfram bardögum við heri bandamanna í Danmörku og Noregi, andspyrnuhreyfingum landanna til skelfingar.

Til þessa kom þó ekki. Karl Dönitz, sem Hitler hafði rétt fyrir dauða sinn skipað forseta Þýskalands, skipaði löndum sínum í Skandinavíu að gefast upp möglunarlaust. Franz Friedrich Böhme hershöfðingja, æðsta manni þýska heraflans í Noregi, barst orðsending Dönitz klukkan 21:10 að kvöldi 7. maí.

Þjóðverjum var nú gert að yfirgefa alla hernaðarlega mikilvæga bæi í Noregi og herstöðvar sínar og þeim safnað á afmörkuð svæði. Ekki var þó heiglum hent að vinda ofan af hernámi 300.000 manna herliðs, fjölda sem jafnast á við smáþjóð, í einu vetfangi. Þjóðverjar fengu því að halda innbyrðis valdastöðum hers síns, nota símskeyti og talstöðvar og jafnvel bera létt vopn, yfirmenn fengu meðal annars að halda skammbyssum sínum. Norska ríkisútvarpið NRK sendi út fréttir á þýsku og gefið var út þýskt dagblað svo Þjóðverjar mættu fylgjast með framvindu mála.

Nánar má lesa um endalok hernámsins í vefútgáfu Morgunblaðsins:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka