Víða í Evrópu er verið að draga úr lokunum vegna kórónuveirunnar í dag. Má þar nefna grunnskóla að hluta, hárgreiðslustofur, bóka- og fatabúðir í Frakklandi. Aftur á móti verða veitingastaðir og barir áfram lokaðir.
Í Belgíu hefja flest fyrirtæki starfsemi að nýju en þess krafist að áfram verði fjarlægð milli einstaklinga virt. Þar líkt og í Frakklandi verða veitingastaðir og barir áfram lokaðir. Í Hollandi hefst kennsla að nýju í yngstu bekkjunum. Eins verða bóksöfn, hárgreiðslustofur, sjúkraþjálfun og ökukennsla í boði að nýju.
Í Sviss verða grunnskólarnir opnaðir að nýju en kennt í minni einingum. Veitingastaðir, bókabúðir og söfn verða opnuð að nýju að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Á Spáni mega tíu koma saman á ákveðnum svæðum og veitingastaðir geta hafið starfsemi að nýju svo lengi sem tveggja metra reglan er virt. Þetta gildir ekki um allt landið.
Í Danmörku verða verslunarmiðstöðvar opnaðar að nýju í dag og í Póllandi mega hótel hefja starfsemi í vikunni. Erlendum ferðamönnum er aftur á móti gert að vera í sóttkví í tvær vikur eftir komuna til landsins.
Alls hafa 1,35 milljónir smita verið staðfestar í Evrópu og flest eru dauðsföllin í Bretlandi, tæplega 32 þúsund talsins. Á Spáni eru flest smit staðfest eða 225 þúsund tæplega og tæplega 26.700 dauðsföll.
Í Bretlandi eru staðfest smit tæplega 221 þúsund. Á Ítalíu eru staðfest smit 219 þúsund og tæplega 31 þúsund hafa látist. Í Rússlandi eru smit 210 þúsund og tæplega tvö þúsund andlát af völdum kórónuveirunnar.
Í Frakklandi eru 177 þúsund smit og 26 þúsund dauðsföll en í Þýskalandi eru smit alls 172 þúsund og tæplega 8 þúsund dauðsföll. Í Belgíu eru veirusmit 53 þúsund talsins en tæplega 8.700 eru látnir á meðan í Hollandi eru smit 43 þúsund talsins og 5.500 dauðsföll.