Donald Trump Bandaríkjaforseti segist vera að taka malaríulyfið Hydroxychloroquine í forvarnaskyni gegn COVID-19. Skiptar skoðanir eru á meðal læknismenntaðra um hvort lyfið virki gegn kórónuveirunni, auk þess sem varað hefur verið við aukaverkunum lyfsins.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur viðrað áhyggjur sínar af því að fólk sé að taka lyfið að eigin frumkvæði án þess að gera sér grein fyrir mögulegum aukaverkunum. Þá hefur dr. Anthony S. Fauci, einn helsti sérfræðingur forseta Bandaríkjanna varðandi farsóttina, beðið fólk um að fara varlega í að nota lyfið þar sem ekki liggi fyrir nein staðfesting á að það virki á veiruna.
Trump hefur ítrekað minnst á lyfið á daglegum blaðamannafundum sínum. „Hverju hafið þið að tapa? Takið það,“ sagði hann á einum slíkum í apríl. Starfsbróðir Trumps í Brasilíu, Jair Bolsonaro, fullyrti í myndskeiði stuttu síðar að lyfið „virkaði í hvívetna“. Myndskeiðið var að vísu fjarlægt af Facebook sökum miðlunar rangra upplýsinga um kórónuveiruna.
Rannsóknir eru þegar hafnar sem miða að því að finna út hvort lyfið virki í raun og veru gegn kórónuveirunni. Hydroxychloroquine er malaríulyf í töfluformi og er hitalækkandi og bólgueyðandi. Vonir standa til að lyfið nýtist í baráttunni gegn kórónuveirunni. Rannsóknirnar miða jafnt að því hvort lyfið nýtist sem forvörn gegn veirunni sem og hvort það nýtist sjúklingum sem greinst hafa með COVID-19.
Prófanirnar eru hins vegar skammt á veg komnar og því vilja vísindamenn ekki fullyrða um virkni malaríulyfsins gegn veirunni. „Við þurfum stærri gæðameiri klínískar prófanir til að geta metið áhrifin betur,“ segir Kome Gbinigie, prófessor við Oxford-háskóla. Þá er einnig þörf á frekari rannsóknum á aukaverkunum lyfsins, svo sem nýrna- og lifrarskaða.
Bandaríska matvæla- og lyfjastofnunin (FDA) gaf út leyfi í lok mars fyrir notkun lyfsins gegn kórónuveirunni í neyðartilfellum. 24. apríl gaf stofnunin svo út viðvörun á notkun lyfsins vegna aukaverkana á borð við hjartsláttartruflanir.