Norðmenn hafa blandað sér af fullri alvöru í evrópska „geimferðakapphlaupið“, ef svo mætti að orði komast, en þeir etja nú kappi við Svía, Skota og Portúgala um hver þessara þjóða verði sú fyrsta í Evrópu til að skjóta gervihnetti á braut um jörðu.
„Ég er óþolinmóður,“ sagði Odd Roger Enoksen, framkvæmdastjóri geimferðamiðstöðvarinnar á Andøya, Andøya Space Center eins og hún heitir formlega, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK fyrir tíu dögum.
Hann greindi þá frá því að Skotar væru komnir lengst í undirbúningsferlinu að því að skjóta upp gervihnöttum sem notaðir verða meðal annars til þess að sjá náttúruhamfarir fyrir og rannsaka breytingar á hafstraumum samhliða loftslagsbreytingum þeim sem jarðarbúar hafa fundið glöggt á eigin skinni síðustu áratugi.
Á þriðjudaginn bárust svo góðu fréttirnar sem NRK greinir frá í dag. Viðskiptanefnd Stórþingsins samþykkti einróma að veita allt að 365 milljónir króna, jafnvirði rúmlega 5,2 milljarða íslenskra króna, til að byggja gervihnattaskotpall á Andøya sem er í Nordland-fylki.
„Þetta skapar hvort tveggja störf á Andøya auk athyglisverðra möguleika fyrir Noreg sem geimþjóð,“ segir Iselin Nybø viðskiptaráðherra við NRK. „Geimferðamál eru í örri þróun og þetta verkefni býður upp á mikla þekkingar- og tækniþróunarmöguleika á norskri jörð.“
Ekki er kálið þó sopið þótt í ausuna sé komið því Stórþingið á eftir að samþykkja útgjöldin í fjárveitingaumræðu í júníbyrjun auk þess sem verðmiðinn á öllu verkefninu skartar fleiri núllum en 365 milljónirnar. Áætlað er að heildarkostnaðurinn við fullbúna aðstöðu til að skjóta gervihnöttum á braut um jörðu frá Andøya verði 1,3 milljarðar króna sem svarar til 18,6 milljarða íslenskra króna.
Þetta nýja hlutverk Andøya er talið hafa í för með sér 100 ný störf og segir Enoksen framkvæmdastjóri að verði hægt að hefja framkvæmdir þegar í haust sé ekkert því til fyrirstöðu að Norðmenn sendi sinn fyrsta gervihnött á braut um jörðu árið 2021.
NRK
NRKII (rætt við Enoksen 12. maí)
Bladet Vesterålen
E24