Segir Kína og Bandaríkin nálgast nýtt kalt stríð

Wang Yi, utanríkisráðherra Kína.
Wang Yi, utanríkisráðherra Kína. AFP

Bandaríkin eru með samskiptum sínum við Kína að ýta löndunum í áttina að nýju köldu stríði. Þetta sagði utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, við blaðamenn í dag.

Sagði hann að vaxandi spenna væri í samskiptum ríkjanna vegna kórónuveirunnar, málefna Hong Kong og annarra atriða. Sagði hann jafnframt að pólitískir kraftar í Bandaríkjunum væru með samskipti ríkjanna í gíslingu og væru að ýta ríkjunum tveimur „að brún nýs kalda stríðs“.

Fyrir helgi voru ný öryggislög í Hong Kong samþykkt án umræðu á kín­verska þing­inu. Lög­in kveða á um bann við upp­reisn­ar­áróðri, landráði og sjálf­stæðisum­leit­un­um sjálf­stjórn­ar­héraðsins. Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa gefið í skyn að Bandaríkin muni beita aðgerðum gegn Kína vegna málsins, en Hong Kong var und­ir­lögð hat­römm­um mót­mæl­um meiri­hluta síðasta árs vegna frum­varps sem leggja átti fyr­ir þing sjálf­stjórn­ar­héraðsins og hefði heim­ilað framsal fanga og eft­ir­lýstra glæpa­manna til Kína. Til­gang­ur nýju lag­anna er m.a. að koma í veg fyr­ir mót­mæli af slíkri stærðargráðu. 

Í nótt kom til átaka milli mótmælenda í Hong Kong og lögreglu, en lögreglan beitti meðal annars piparúða á mótmælendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert