Bandaríkin eru með samskiptum sínum við Kína að ýta löndunum í áttina að nýju köldu stríði. Þetta sagði utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, við blaðamenn í dag.
Sagði hann að vaxandi spenna væri í samskiptum ríkjanna vegna kórónuveirunnar, málefna Hong Kong og annarra atriða. Sagði hann jafnframt að pólitískir kraftar í Bandaríkjunum væru með samskipti ríkjanna í gíslingu og væru að ýta ríkjunum tveimur „að brún nýs kalda stríðs“.
Fyrir helgi voru ný öryggislög í Hong Kong samþykkt án umræðu á kínverska þinginu. Lögin kveða á um bann við uppreisnaráróðri, landráði og sjálfstæðisumleitunum sjálfstjórnarhéraðsins. Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa gefið í skyn að Bandaríkin muni beita aðgerðum gegn Kína vegna málsins, en Hong Kong var undirlögð hatrömmum mótmælum meirihluta síðasta árs vegna frumvarps sem leggja átti fyrir þing sjálfstjórnarhéraðsins og hefði heimilað framsal fanga og eftirlýstra glæpamanna til Kína. Tilgangur nýju laganna er m.a. að koma í veg fyrir mótmæli af slíkri stærðargráðu.
Í nótt kom til átaka milli mótmælenda í Hong Kong og lögreglu, en lögreglan beitti meðal annars piparúða á mótmælendur.