Prófunum á virkni malaríulyfsins hydroxychloroquine á kórónuveiruna hefur verið hætt, að minnsta kosti tímabundið, vegna gruns um að slíkt sé ekki öruggt. Þetta er haft eftir Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO í frétt BBC.
Þar segir að prófunum á lyfinu, sem verið hafa í gangi í nokkrum löndum, hafi tímabundið verið aflýst vegna rannsóknar, hverrar niðurstöður voru að meðferð sjúklinga með COVID-19 með lyfinu gæti jafnvel aukið líkur á dauðsfalli af völdum sjúkdómsins.
Mikið hefur verið rætt um mögulega virkni hydroxychloroquine á kórónuveiruna og hefur lyfið víða verið notað sem tilraunameðferð. Sérstaka athygli vakti svo þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist taka lyfið sem forvörn gegn kórónuveirunni.