Veðurfarsstofnun Sameinuðu þjóðanna varar við því að kórónuveirufaraldurinn geti haft alvarlega áhrif á afleiðingar hitabylgju sem mun að öllum líkindum ganga yfir norðurhvel jarðar í sumar.
Alþjóðaveðurfræðistofnunin (e. World Meterological Organization, WMO) hvetur ríkisstjórnir til að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi íbúa í sumarhitanum en reyna á sama tíma að koma í veg fyrir að smit breiðist út.
Árið 2019 var heitasta ár frá upphafi mælinga í Evrópu, samkvæmt árlegri skýrslu loftslagssviðs Copernicusar, og í ár er útlit fyrir að metið verði slegið samkvæmt Clare Nullis Klapp, talskonu WMO. „COVID-19 eykur líkur á heilbrigðisáhættu í hitabylgju og flækir viðbragðsferlið,“ segir Nullis Klapp.
Hún bendir til að mynda á að ekki verði æskilegt að hvetja fólk til að safnast saman í stórum almenningsrýmum sem verða loftkæld og því hefur stofnunin efnt til samstarfs nokkurra alþjóðasamtaka sem leita nú leiða til að bregðast við yfirvofandi hitabylgju með nýjum hætti sem styður smitvarnir.