Lögreglumaðurinn ákærður fyrir að myrða Floyd

Lögreglumaðurinn Derek Chauvin er í varðhaldi en hann er sakaður …
Lögreglumaðurinn Derek Chauvin er í varðhaldi en hann er sakaður um að hafa orðið George Floyd, 46 ára svörtum Bandaríkjamanni, að bana á mánudag. AFP

Lögreglumaður sem sakaður er um að hafa orðið George Floyd, 46 ára svörtum Bandaríkjamanni, að bana í Minneapolis í vikunni hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald og ákærður fyrir morð.

Lögreglumaðurinn, sem heitir Derek Chauvin, hefur verið úthrópaður sem morðingi eftir að Floyd lést og upp hafa blossað óeirðir í Minnesota-ríki. BBC greinir frá. 

Saksóknari Hennepin-sýslu í Minnesota-ríki, Mike Freeman, sagði við fjölmiðla að Chauvin yrði ákærður fyrir að valda dauða Floyd með háttsemi sem var til þess fallin að valda skaða (e. Third degree muder). Rannsókn á háttsemi lögregluþjónanna þriggja sem tóku þátt í að handataka Floyd stendur enn yfir.

Freeman sagðist eiga von á því að þeir yrðu ákærðir sömuleiðis en vildi ekki tjá sig frekar. Hann sagði jafnframt að Chauvin hefði verið ákærður um leið og sönnunargögn hafi borist og að aldrei áður hefði lögreglumaður verið ákærður jafn fljótt.

Andlát Floyd hefur verið harðlega gagnrýnt en hann lést í haldi lög­reglu á mánu­dag og mynd­skeið sem vegfarandi tók sýn­ir hann kafna þegar Chauvin kraup á hálsi hans.

Und­an­farn­ar þrjár næt­ur hef­ur verið mót­mælt og í gær­kvöldi var kveikt í lög­reglu­stöðinni þar sem fjór­ir lög­reglu­menn, sem tóku þátt í hand­tök­unni, störfuðu. Þeim hef­ur öll­um verið vísað úr starfi vegna dauða Floyds og nú hefur einn þeirra, Derek Chauvin, verið ákærður fyrir morð. Hann er sá sem kraup á hálsi Floyd.  

Yfirmaður almannavarna í Minnesota-ríki staðfesti við fjölmiðla síðdegis að lögreglumaðurinn hefði verið handtekinn vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert