Ástandið muni versna í kvöld

Ríkisstjóri Minnesota, Tim Walz, sagði í morgun frá því að hann hygðist kalla til þúsundir hermanna úr bandaríska þjóðvarðliðinu til viðbótar við þá sem þegar hafa verið sendir á vettvang í Minneapolis og Saint Paul, þar sem ríkir dæmalaust óeirðarástand. 

Það sem hófst sem mótmæli í upphafi vikunnar, vegna dauða George Floyd í höndum lögreglu á svæðinu, hefur breyst í einhverja mestu óeirðaöldu sem gengið hefur yfir í Bandaríkjunum á síðustu árum. Tugir þúsunda hafa flykkst út á götur Minneapolis síðustu daga þrátt fyrir útgöngubann, sem var til komið vegna mótmælanna, en ekki kórónuveiru.

Að upplagi er verið að mótmæla lögregluofbeldi en við hóp mótmælenda hefur bæst fjöldi fólks bæði frá Minnesota en einnig frá öðrum stöðum í Bandaríkjunum. Yfirvöld í Minnesota hafa handtekið fjölda manns og segja flesta hinna handteknu vera komna að utan. 

Versnar í kvöld

Óánægjan stafar af ýmsu en ljóst er að eyðileggingin er gríðarleg. Þá er því spáð að ástandið eigi aðeins eftir að versna: Walz ríkisstjóri hefur sagt að óspektirnar hingað til muni blikna í samanburði við það sem hann óttast að muni eiga sér stað í kvöld.

Sem fyrr segir breiðist óeirðaaldan út um Bandaríkin eins og eldur í sinu: New York Times segir frá því að í Atlanta og New York hafi eldur verið lagður að lögreglubílum og að í San José og Detroit hafi stórum umferðargötum verið lokað af mótmælendum.

Upp með hendur í Atlanta. Lögregla og mótmælendur mætast í …
Upp með hendur í Atlanta. Lögregla og mótmælendur mætast í hörðum átökum. AFP

Í Milwaukee kyrjaði fjöldinn: „I can’t breathe“ og vísaði þar til hinstu orða hins látna Floyd. Í Portland var kveikt í opinberum byggingum. Í Houston voru nærri tvö hundruð handteknir, sem tóku þátt í því sem lögregluyfirvöld kölluðu ólöglegar samkomur.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvetur ríkin til að standa á sínu, berjast og handtaka „þá slæmu“. Hann leggur áherslu á að þau ríki sem eru hvað verst leikin af mótmælunum séu undir stjórn demókrata, eins og gildir um Minneapolis, en þar er demókrati borgarstjóri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka