Ekkert annað en „morð að yfirlögðu ráði“

00:00
00:00

Lög­fræðing­ur fjöl­skyldu Geor­ge Floyds, sem lést eft­ir að lög­reglumaður kraup á hálsi hans, seg­ir að um morð að yf­ir­lögðu ráði hafi verið að ræða. 

Fjór­um lög­reglu­mönn­um sem voru viðstadd­ir hand­tök­una var vikið úr starfi skömmu eft­ir and­lát Floyds og einn þeirra, Derek Chau­vin, hef­ur verið ákærður fyr­ir mann­dráp þegar hann beitti Floyd, sem var 46 ára gam­all, hörku við hand­töku í Minn­ea­pol­is sl. mánu­dag. 

Benjam­in Crump, lögmaður fjöl­skyldu Floyds, vill að Chau­vin verði ákærður fyr­ir morð að yf­ir­lögðu ráði í stað mann­dráps. „Hann gerði þetta af ásetn­ingi. Hann kraup á hálsi hans í nán­ast níu mín­út­ur á meðan hann þrábað um hjálp,“ seg­ir Crump í sam­tali við CBS-frétta­stof­una. Hann bend­ir sér­stak­lega á að Chau­vin hélt áfram að krjúpa á hálsi Floyd í um þrjár mín­út­ur eft­ir að hann missti meðvit­und. „Við skilj­um ekki af hverju er ekki litið á það sem morð að yf­ir­lögðu ráði,“ seg­ir Crump. 

„Kannski ætt­um við að leggja hann á hliðina?“

Chau­vin kem­ur fyr­ir dóm­ara á morg­un. Crump hef­ur fengið aðgang að mynd­efni úr mynda­vél­um lög­reglu­mann­anna þar sem einn lög­reglumaður­inn heyr­ist segja: „Hann er ekki með púls, kannski ætt­um við að leggja hann á hliðina?“ Þá heyr­ist Chau­vin svara: „Nei, við höld­um hon­um í þess­ari stöðu.“ 

Fjöl­menn mót­mæli hafa brot­ist út víðs veg­ar um Banda­rík­in í kjöl­far dauða Floyds og hafa stig­magn­ast í ein­hverja mestu óeirðaöldu sem gengið hef­ur yfir í Banda­ríkj­un­um á síðustu árum. Tug­ir þúsunda hafa flykkst út á göt­ur Minn­ea­pol­is síðustu daga þrátt fyr­ir út­göngu­bann, sem var til komið vegna mót­mæl­anna, en ekki kór­ónu­veiru.

Að upp­lagi er verið að mót­mæla lög­reglu­of­beldi en við hóp mót­mæl­enda hef­ur bæst fjöldi fólks bæði frá Minnesota en einnig frá öðrum stöðum í Banda­ríkj­un­um. Yf­ir­völd í Minnesota hafa hand­tekið fjölda manns og segja flesta hinna hand­teknu vera komna að utan. Bú­ist er við að mót­mæl­in haldi áfram í kvöld, sjötta kvöldið í röð, og eru þau far­in að teygja sig út fyr­ir land­stein­ana, meðal ann­ars til Dan­merk­ur og Bret­lands. 

Fjölmenn mótmæli hafa brotist út víðs vegar um Bandaríkin í …
Fjöl­menn mót­mæli hafa brot­ist út víðs veg­ar um Banda­rík­in í kjöl­far dauða Floyds og hafa stig­magn­ast í ein­hverja mestu óeirðaöldu sem gengið hef­ur yfir í Banda­ríkj­un­um á síðustu árum. AFP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert