Mótmæli teygja sig til Danmerkur

Mótmælendur við bandaríska sendiráðið í Kaupmannahöfn.
Mótmælendur við bandaríska sendiráðið í Kaupmannahöfn. AFP

Um 2.000 manns komu saman á Austurbrú í Kaupmannahöfn í eftirmiðdaginn til að mótmæla meðferð bandarískrar lögreglu á svörtum íbúum Bandaríkjanna. Vildu mótmælendur þannig sýna þeim fjölda sem mótmælir nú vestanhafs stuðning, en þar í landi hafa kröftug mótmæli geisað síðustu daga eftir að myndband náðist af því þegar lögregluþjónn drepur óvopnaðan svartan mann, að nafni George Floyd, með því að þrengja að öndunarvegi hans.

Gangan í Kaupmannahöfn hófst klukkan tvö að staðartíma á Austurbrú en gengið var að bandaríska sendiráðinu sem liggur við Kritsjánsborgarhöll. Mótmælendur báru borða sem á stóð Black Lives Matter (Líf svartra skipta máli) sem eru einkunnarorð baráttuhóps í Bandaríkjunum fyrir réttindum svartra. Að sögn lögreglunnar í Kaupmannahöfn fóru mótmælin friðsamlega fram.

Sömu sögu er ekki að segja frá Bandaríkjunum en í Minneapolis, heimaborg Floyd, og víðar í landinu hefur komið til átaka milli mótmælenda og lögreglu. Sett hefur verið á útgöngubann víða í landinu til að reyna að hafa hemil á mótmælendum en það mun hafa dugað skammt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert