Áströlsk yfirvöld rannsaka árás bandarísku lögreglunnar á tvo starfsmenn ástralskrar sjónvarpsstöðvar fyrir utan Hvíta húsið í gær. Utanríkisráðherra Ástralíu lýsir yfir miklum áhyggjum vegna árásarinnar.
„Við höfum óskað eftir því við sendiráð Ástralíu í Washington að rannsaka atvikið,“ segir Marise Payne, utanríkisráðherra Ástralíu, en atvikið náðist á mynd. Þar sjást þau slegin með hlífðarskildi og kylfu þar sem þau eru að taka upp og lýsa mótmælum í útsendingu.
Payne segir að þegar nákvæmari upplýsingar liggi fyrir verði þessu fylgt eftir með opinberri kvörtun til bandarískra yfirvalda.
Á myndum má sjá Amelia Brace, fréttakonu á 7NEWS, slegna með gúmmíkylfu og Tim Myers tökumann stöðvarinnar sleginn með óeirðaskildi og sleginn í andlitið af lögreglu sem var að rýma Lafayette-torgið í gær. Brace og Myers segja að eftir þetta hafi þau verið skotin með gúmmíkúlum og táragasi sprautað á þau.
Fjölmargir fylgdust með útsendingunni í Ástralíu og vöktu viðbrögð lögreglu litla gleði meðal landsmanna en hingað til hefur Ástralía verið náið bandalagsríki Bandaríkjanna.
Bandarísku lögreglunni, með stuðningi hersins, hafði verið gert að rýma torgið áður en Donald Trump Bandaríkjaforseti yfirgæfi Hvíta húsið fyrir myndatöku fyrir utan kirkju. Mótmæli á torginu voru friðsamleg þangað til lögreglu var gert að rýma torgið og táragasi og gúmmíkúlum beitt.
Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir það hvernig hann hefur tekið á málunum í kjölfar dráps á óvopnuðum svörtum manni í Minneapolis 25. maí. George Floyd lést þegar lögreglumaður hélt hné sínu að hálsi hans í tæpar 9 mínútur.
Payne beindi gagnrýni sinni einnig beint að Trump. Í viðtali við ABC-útvarpsstöðina í dag sagði hún að Bandaríkin væru greinilega að fara í gegnum mjög erfitt skeið og það á mörgum sviðum.
„Við styðjum alltaf rétt fólks til friðsamlegra mótmæla og hvetjum alla þá sem eiga hlut að máli til að sýna stillingu og forðast ofbeldi.“