Ný skýrsla sú óvæntasta í sögunni

Nýjar atvinnutölur birtust fyrir helgi.
Nýjar atvinnutölur birtust fyrir helgi. AFP

Tölur um atvinnuþátttöku í Bandaríkjunum í maímánuði eru að mati hagfræðinga gríðarlega óvæntar. Þetta kemur fram í umfjöllun Marketwatch um málið. Þvert á spár sér­fræðinga fjölgaði störf­um í Banda­ríkj­un­um um­tals­vert, en alls jókst fjöld­inn um 2,5 millj­ón­ir í mánuðinum og er at­vinnu­leysi nú 13,3%. Spár sérfræðinga höfðu gert ráð fyrir að ríflega sjö milljónir starfa myndu tapast. 

Aldrei hefur viðlíka fjöldi nýrra starfa bæst við í einum mánuði í Bandaríkjunum. Áður var mestur fjöldi viðbættra starfa rétt ríflega ein milljón árið 1983. Þetta kemur fram í tölum BLS, sem heldur utan um tölfræði er varðar atvinnuþátttöku vestanhafs. 

Tölurnar gríðarlega óvæntar

„Þetta eru óvæntustu tölur sem birst hafa í sögunni og það með miklum yfirburðum. Að öllum líkindum má rekja þetta til þess að fjöldi fyrirtækja er að ráða fólk til baka nú þegar faraldurinn er í rénun. Sama hvað býr að baki er sérstakt að ekki hafi verið hægt að sjá þetta fyrir,“ er haft eftir Ian Shepherson, aðalhagfræðingi Pantheon Macroeconomic. 

„Aldrei hafa spár verið jafnrangar og nú. Þessi skýrsla bendir til þess að Bandaríkjamenn séu að snúa aftur í vinnuna. Það þarf þó að muna að hagkerfið er í mikilli kreppu. Hins vegar er augljóst að endurreisnin er hafin,“ segir David Donabedian, forstöðumaður eignastýringar hjá CIBC. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert