Telja morðvopnið fundið

Forsætisráðherrann árið 1983.
Forsætisráðherrann árið 1983. AFP

Vopnið sem notað var til að myrða Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, er talið fundið. Frá þessu greinir sænska ríkisútvarpið SVT en til hefur staðið að ríkissaksóknari landsins kynni niðurstöður rannsóknar sinnar á sérstökum kynningarfundi á miðvikudag.

Heimildir ríkisútvarpsins herma að á fundinum eigi að greina frá þessum tíðindum.

Palme var skot­inn til bana 28. fe­brú­ar 1986 er hann var að koma úr kvikmyndahúsi með konu sinni og hafa yfir 10.000 manns verið yf­ir­heyrðir í tengsl­um við rann­sókn­ina á morðinu.

Fréttamaður SVT, Karin Fagerlund, sem fylgst hefur með starfi nefndarinnar segir þessar fregnir ekki koma á óvart.

Haft tvö vopn til prófana

„Við höfum trúað þessu allan tímann. Við höfum fengið vísbendingar um þetta en höfum ekki náð að staðfesta það hundrað prósent,“ hefur SVT eftir henni.

Héraðssaksóknarinn Krister Petersson hefur áður lofað því að á fundinum verði færð fram sönnunargögn. Palme-rannsóknarnefndin hefur undanfarin ár haft tvö vopn til prófana — vopn sem sögð eru koma mjög líklega úr safni byssusafnara.

Sá er sagður hafa verið góður vinur Stig Engström, sem féll fyr­ir eig­in hendi árið 2000, en hann hefur verið sagður lík­leg­ur til að vera morðingi Palme.

„Of mikil gunga“

Fyrr­ver­andi eig­in­kona Engströms sagði í sam­tali við dag­blaðið Expressen árið 2018 að lög­regla hefði rætt við sig í tvígang um Engström á undangengnu ári. „Þeir spurðu margs,“ sagði hún. „Hann var bara ekki sú týpa, það er al­veg ör­uggt. Hann var of mik­il gunga og hefði ekki gert flugu mein.“

Engström var alltaf tal­inn lyk­il­vitni í mál­inu þar sem hann var einn þeirra fyrstu á vett­vang, en var ekki tal­inn grunaður. Sænsk­ir fjöl­miðlar nefndu hann gjarn­an Skandia-mann­inn þar sem hann hafði verið að vinna fram ­eft­ir í Skandia-bygg­ing­unni, sem var í ná­grenni árás­arstaðar­ins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka