Telja morðvopnið fundið

Forsætisráðherrann árið 1983.
Forsætisráðherrann árið 1983. AFP

Vopnið sem notað var til að myrða Olof Palme, for­sæt­is­ráðherra Svíþjóðar, er talið fundið. Frá þessu grein­ir sænska rík­is­út­varpið SVT en til hef­ur staðið að rík­is­sak­sókn­ari lands­ins kynni niður­stöður rann­sókn­ar sinn­ar á sér­stök­um kynn­ing­ar­fundi á miðviku­dag.

Heim­ild­ir rík­is­út­varps­ins herma að á fund­in­um eigi að greina frá þess­um tíðind­um.

Palme var skot­inn til bana 28. fe­brú­ar 1986 er hann var að koma úr kvik­mynda­húsi með konu sinni og hafa yfir 10.000 manns verið yf­ir­heyrðir í tengsl­um við rann­sókn­ina á morðinu.

Fréttamaður SVT, Kar­in Fager­lund, sem fylgst hef­ur með starfi nefnd­ar­inn­ar seg­ir þess­ar fregn­ir ekki koma á óvart.

Haft tvö vopn til próf­ana

„Við höf­um trúað þessu all­an tím­ann. Við höf­um fengið vís­bend­ing­ar um þetta en höf­um ekki náð að staðfesta það hundrað pró­sent,“ hef­ur SVT eft­ir henni.

Héraðssak­sókn­ar­inn Krister Peters­son hef­ur áður lofað því að á fund­in­um verði færð fram sönn­un­ar­gögn. Palme-rann­sókn­ar­nefnd­in hef­ur und­an­far­in ár haft tvö vopn til próf­ana — vopn sem sögð eru koma mjög lík­lega úr safni byssusafn­ara.

Sá er sagður hafa verið góður vin­ur Stig Engström, sem féll fyr­ir eig­in hendi árið 2000, en hann hef­ur verið sagður lík­leg­ur til að vera morðingi Palme.

„Of mik­il gunga“

Fyrr­ver­andi eig­in­kona Engströms sagði í sam­tali við dag­blaðið Expressen árið 2018 að lög­regla hefði rætt við sig í tvígang um Engström á und­an­gengnu ári. „Þeir spurðu margs,“ sagði hún. „Hann var bara ekki sú týpa, það er al­veg ör­uggt. Hann var of mik­il gunga og hefði ekki gert flugu mein.“

Engström var alltaf tal­inn lyk­il­vitni í mál­inu þar sem hann var einn þeirra fyrstu á vett­vang, en var ekki tal­inn grunaður. Sænsk­ir fjöl­miðlar nefndu hann gjarn­an Skandia-mann­inn þar sem hann hafði verið að vinna fram ­eft­ir í Skandia-bygg­ing­unni, sem var í ná­grenni árás­arstaðar­ins.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert