Útför George Floyds fer fram í Houston í Texas og hófst klukkan 16 að íslenskum tíma. Floyd ólst upp í Houston en undanfarna daga hafa verið haldnar nokkrar minningarathafnir, meðal annars í í Raeford í Norður-Karólínu þar sem hann fæddist og í Minneapolis þar sem hann var drepinn 25. maí af lögreglumanni sem kraup á hálsi hans.
Dauði Floyds hefur orðið kveikjan að hörðum mótmælum þar sem kynþáttafordómum og mismunun lögreglu gagnvart svörtu fólki ber hæst þótt ræturnar nái mun dýpra. Mótmælt hefur verið daglega frá dauða Floyds en mótmælin í Washington um helgina voru líklega þau mestu í Bandaríkjunum frá því Martin Luther King var myrtur árið 1968 þegar hann var á Hótel Lorraine í Memphis í Tennesse.