Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir að kerfisbundinn rasisma megi finna í öllum stofnunum Kanada, þar á meðal kanadísku alríkislögreglunni. Var hann þar að svara ummælum Brendu Lucki alríkislögreglustjóra sem sagði að kerfisbundinn rasismi væri ekki til staðar innan stofnunarinnar.
„Kerfisbundinn rasismi er landlægt vandamál, sem má finna í öllum okkar stofnunum, þar á meðal innan lögreglunnar. Það er erfitt fyrir mig sem forsætisráðherra að viðurkenna að ríkisstjórn mín, sem reynir að vera framsækin og opin og reynir að verja minnihlutahópa, sé sek um kerfisbundinn rasisma,“ sagði forsætisráðherrann.
Brenda Lucki, sem var skipuð í embætti af Trudeau árið 2018, sagði í viðtali í gær að hún ætti erfitt með skilgreininguna á kerfisbundnum rasisma en viðurkenndi að sumir lögreglumenn sýndu „ómeðvitaða hlutdrægni“. Hún lofaði að gera þá sem gerast sekir um slíkt ábyrga gjörða sinna.
„Ef kerfisbundinn rasismi þýðir að rasismi sé rótgróinn í stefnum okkar og verklagi myndi ég segja að kerfisbundinn rasismi væri ekki til staðar innan okkar raða,“ sagði hún.
Fleiri þúsund Kanadabúar hafa gengið fylktu liði um götur borga þar í landi til að sýna nágrönnum sínum í Bandaríkjunum samstöðu í baráttunni gegn rasisma og lögregluofbeldi sem hófst eftir að George Floyd var drepinn af lögreglumanni.