Lögreglan í Oklahoma hefur birt myndbandsupptöku úr búkmyndavél lögregluþjóns frá í fyrra. Myndbandið sýnir handtöku svarts manns, Derrick Scott, sem skellt er í jörðina og handjárnaður, en meðan á handteku stendur segir hann að hann geti ekki andað. „I can't breathe,“ segir maðurinn, sömu orð og George Floyd öskraði í sífellu þegar hann var drepinn og mótmælendur hafa síðar gert ódauðleg. Lögreglumaðurinn í myndbandi heyrist svara manninum „Mér er alveg sama.“ NY Times greinir frá.
Scott var handtekinn 20. maí eftir að lögreglu barst tilkynning um mann sem sveiflaði skotvopni á almannafæri. Hann lést í vörslu lögreglu tveimur dögum síðar en í læknisskýrslu sem birt var í ágúst kemur fram að líkleg ástæða dauða hans sé að hægra lunga hafi fallið saman. Eru handtakan, nýleg metamfetamínnotkun, hjartveiki og lungnaþemba nefnd sem mögulegar ástæður, en opinber ástæða andlátsins er skráð „óviss“.
Ættingjar Scott og hópar mótmælenda tengdir Black Lives Matter-hreyfingunni höfðu áður farið fram á að lögregla deildi frekari upplýsingum um andlát Scott.