Opnun Danmerkur „að breytast í farsa“

Fólk nýtur lífsins á Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn. Svæðinu hefur verið …
Fólk nýtur lífsins á Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn. Svæðinu hefur verið skipt upp í litla reiti og má aðeins tiltekinn fjöldi fólks vera á hverjum þeirra. AFP

Opnun landamæra Danmerkur er við það að breytast í farsa. Þetta segir Lasse Skou Andersen, blaðamaður danska blaðsins Information í leiðara blaðsins, sem birtist á föstudag. Danska þingið takist á um smáatriði og pólitík ráði för frekar en vísindin.

„Eftir að hafa skipt um skoðun með nemendur, hótelgistingar og ferðir maka var þingið kallað saman á fimmtudag til ráðagerða um hvort brúðkaupsveislur á skemmtistöðum, veitingastaðir og hótel skyldu fá leyfi til að hafa opið fram yfir miðnætti,“ segir í leiðaranum. Nákvæm útlisting á mestu smáatriðum um líf borgaranna sé ekki viðeigandi.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn. AFP

Umræðurnar í þinginu séu lýsandi fyrir það grundvallarvandamál sem opnunin afhjúpar. Frelsi, sem áður var tekið sem gefnu, sé nú fagnað sem miklum sigri. Tilviljanir ráði ákvarðanatökuferlinu og hver sérstaka undanþágan á fætur annarri skapi skrifræðisfrumskóg.

Landamæri Danmerkur voru opnuð fyrir ferðamönnum frá Íslandi, Noregi og Þýskalandi í dag. Upphaflega stóð til að ekki mætti gista í Kaupmannahöfn, en vikið hefur verið frá þeirri reglu vegna harðlegrar gagnrýni danskrar ferðaþjónustu og borgaryfirvalda í Kaupmannahöfn.

Frank Jensen, borgarstjóri Kaupmannahafnar, fagnaði ákvörðuninni á Twitter. Hann fékk þó ekki allar sínar óskir uppfylltar, því enn verður gerð krafa um að ferðamenn sem koma til landsins sýni fram á að þeir hyggist dvelja í landinu í minnst sex daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert